Jeppaleiðangur á vegum Arctic Trucks náði aðfaranótt þriðjudags að komast á „óaðgengilega pólinn“ á Suðurskautslandinu. Ökumennirnir Eiður Smári Valsson og Hlynur Sigurðsson, ásamt þremur öðrum, voru áður búnir að fara yfir sjálfan suðurpólinn.

„Þetta er búið að ganga rosalega vel. Við erum búnir að keyra yfir 3.100 kílómetra. Þetta er seinfarið, smá bilanir, en veðrið er gott,“ segir Hlynur.

Leiðangurinn hófst 3. janúar í Puntar Arenas í Chile í Suður-Ameríku og á að enda í Höfðaborg í Suður-Afríku á þriðjudaginn í næstu viku. Leiðangurinn er sá fyrsti í heiminum þar sem farið er þvert yfir Suðurskautslandið á milli Ronne- og Nivlesen-íshellunnar.

„Óaðgengilegi póllinn“ er sá staður sem lengst er frá hafi og er rúmum 500 kílómetrum frá sjálfum suðurpólnum. Þangað er líka talsvert erfiðara að komast. Sovétmenn byggðu þar rannsóknarstöð í kalda stríðinu og er hún grafin í fönn en upp úr stendur stytta af Lenín sem horfir í átt að Moskvu. Staðurinn er sá kaldasti á jörðu með -58,2 stiga meðalhita.

Þetta er í annað sinn sem leiðangur Íslendinga fer á staðinn, í leiðangrinum árið 2011 fannst þeim Lenín nokkuð kaldur og klæddu hann í úlpu. Hlynur segir að þeir hafi hitt hann aftur núna. „Við föðmuðum hann aðeins.“

Emil Grímsson, stofnandi Arctic Trucks, hefur farið í leiðangur á Suðurskautslandið og þekkir vel aðstæðurnar sem hópurinn er í. Hann segir það taka tíma að venjast kuldanum. „Það er hreinlega fyndið hvað maður skelfur mikið til að byrja með. Svo er þetta í 3.000 metra hæð yfir sjávarmáli, í samanburði við miðbaug jafngildir súrefnismagnið nálægt 4.000 metra hæð. Í mínus fimmtíu, með háfjallaveiki, það er vont en það venst,“ segir Emil og hlær.

Tuttugu og sjö bílar frá fyrirtækinu eru núna í notkun á Suðurskautinu. Leiðangurinn er fjármagnaður af Rússa sem er með í ferðinni.

Hlynur segir að hitastigið hafi farið niður í -32 gráður á þriðjudaginn, en nú er hásumar á suðurhvelinu. „Maður verður að taka því rólega. Ljósmyndarinn okkar hreyfði sig of hratt og það leið yfir hann, en þetta er allt í lagi ef maður gerir þetta í rólegheitum. Það eru allir sprækir núna og ánægðir,“ segir Hlynur.

Þegar Fréttablaðið hafði samband var hópurinn rétt ókominn að 83. breiddargráðu þar sem gist er. „Við eigum svo eftir 1.400 kílómetra.“