Fjármálaeftirlitið telur að Íslandsbanki kunni að hafa brotið gegn ákvæðum laga og reglna um Íslandsbanka og starfsemi hans þegar seldur var 22,5 prósent hlutur í bankanum í mars. Þetta er niðurstaða frummats FME sem Íslandsbanki hefur nú fengið í hendur.

Þetta kemur fram í frétt RÚV en sáttarferli er nú hafið en það kom fram í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar. Talið er að stjórnendur bankans taki frummati FME alvarlega.

Starfsmenn bankans voru meðal þeirra aðila sem fengu að kaupa hlut í lokuðu söluferli í mars. Ekki kemur þó fram í tilkynningu hver hin hugsanlegu lögbrot eru.

Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka sagði í samtali við RÚV að Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka gæti ekki tjáð sig um málið á meðan sáttaferlið standi yfir.

Breytingar á söluferli enn til skoðunar

Komið hefur fram áður að áfram standi til að selja frekari hluta af Íslandsbanka en að ekki verði ráðist í slíka sölu fyrr en frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála og efnahagsráðherra verði tekið fyrir á Alþingi. Því frumvarpi er ætlað að skoða breytingar á sölufyrirkomulaginu.

Frumvarpið átti að vera kynnt á Alþingi í nóvember síðastliðnum en staðfest hefur verið að frumvarpinu seinkar og verður það ekki lagt fram fyrr en á vorþingi.