Í Reykjavík hafa frá því árið 2018 verið starfandi tvö farteymi sem eru úrræði fyrir börn í grunnskólakerfinu með alvarlegan fjölþættan vanda. Teymunum hefur hingað til verið skipt í austur og vestur en nú verður þeim breytt þannig að fulltrúi frá þeim verður staðsettur á hverri þjónustumiðstöð og þannig færist þjónustan nær börnunum og íbúum borgarinnar.

Stofnun teymanna má rekja til bókunar 1 í kjarasamningi grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að finna leiðir til að létta álagi af kennurum. Mikil aðsókn hefur verið í þjónustu farteymanna frá upphafi og hefur það aukist með árunum.

„Með þróunarverkefninu Betri borg fyrir börn færast teymin á hverfahlutana, eða inn á þjónustumiðstöðvarnar,“ segir Lína Dögg Ástgeirsdóttir, teymisstjóri farteymis Vestur, sem starfrækt er í Vesturbæjarskóla eins og er. Hitt teymið, Austur, er með aðsetur í Hamraskóla og er deildarstjóri þar Guðrún Björk Freysteinsdóttir.

„Þegar þetta breytist verðum við hluti af skólateymi þjónustumiðstöðvanna og bætumst við þann hóp fagaðila sem er þar þá þegar,“ segir Lína Dögg.

Innan hvors teymis starfa fjölmargir ólíkir sérfræðingar en það á ekki að skipta máli á hvaða borði mál lendir því að málin eru alltaf unnin í samvinnu.

Þjónusta við börn með fjölþættan vanda færist út í hverfin og nær börnunum sjálfum.
Fréttablaðið/Ernir

Teymi sem hentar barninu

„Við vinnum alltaf þvert á borgina. Núna erum við austur og vestur en það hefur alveg verið þannig að manneskja úr teyminu í austur vinnur með í einhverju máli sem er í vesturhluta. Þannig er hægt að velja þá sem henta best í teymi hvers barns,“ segir hún.

Lína Dögg segir að það valdi þeim eðlilega áhyggjum að vera ekki öll saman lengur á hverjum degi en að þau muni reglulega hittast á málafundum þannig að það ætti ekki að skipta höfuðmáli. Auk þess verða teymin nú hluti af skólateymi á þjónustumiðstöð og hafa þar með aðgengi að fleiri sérfræðingum og hægt sé að vinna málin þéttar saman.

„En það fer ótrúlega mikil speglun fram í rýminu okkar og þó svo að það séu ekki allir að vinna að sama málinu þá geta þeir utan þess komið með vandaðar ráðleggingar. Við vinnum ótrúlega þétt saman og leitum til hvert annars. Kennsluráðgjafinn getur verið með hugmyndir sem að sálfræðingurinn er ekki endilega með. Það er ótrúlega mikill kostur að vera í þverfaglegu teymi því þá er hægt að skoða málin frá ólíkum vinklum,“ segir Lína Dögg.

Hún segir að þrátt fyrir þessar áhyggjur séu kostir þess að fara inn í hverfin mjög miklir. Þegar þau eru komin þangað fari þau inn í skólateymi hvers hverfis og þá séu þau í meiri samvinnu við fjölda annarra faghópa sem þar starfa, svo sem félagsráðgjafa, sálfræðinga, hegðunarráðgjafa og talmeinafræðinga.

„Við vinnum mikið með þjónustumiðstöðvunum og það er nánast undantekningarlaust aðili frá þjónustumiðstöðinni í hverju teymi sem situr alla teymisfundi,“ segir Lína Dögg.

Innan farteymanna tveggja starfa kennsluráðgjafar, sálfræðingur, fjölskyldufræðingar, tómstunda- og félagsmálafræðingur, uppeldis- og menntunarfræðingur og auk þess eru einhverjir með grunn í sálfræði og eða félagsráðgjöf. Í teymi hvers barns er svo valið eftir þörf.