Landlæknir hefur nú hafið skoðun sína á skýrslu Landspítalans um hópsýkinguna á Landakoti. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag.
Hann sagði einnig frá því að framkvæmdastjórn spítalans hefði nú rýnt í skýrsluna og að vinni nú að úrbótum. Hann sagði sumar þeirra nú þegar hafnar eins og framkvæmdir á K1 legudeild á Landakoti en þar er nú unnið að því að setja loftræstingu, sem hann sagði af bestu gerð.
Hann sagði að það væri nú unnið að því að flytja síðustu sjúklingana af Landakoti sem eru þar í einangrun svo hægt sé að ljúka þar þrifum og koma starfseminni í eðlilegt horf.
Ástandið batnandi
Már sagði ástandið á spítalanum annars batnandi og sagði aðeins tíu inniliggjandi með virka sýkingu. Hann sagði þó 35 hafa lokið einangrun og eru að glíma við eftirköst eða undirliggjandi önnur vandamál sem þau hafi verið að glíma við fyrir.
Hann sagði að valkvæðar aðgerðir væru að einhverju leyti hafnar en það væri unnið að því að koma í samt horf. Þá sagði hann einnig búið að vera mikið álag á gjörgæslunni.
Hann sagði álag mest á spítalanum þegar mikið er af samfélagssmitum og sagði mikilvægt að almenningur gætti vel hver að öðrum og þannig getum við haldið samfélagssmitum í lágmarki og verndað viðkvæmustu hópana.