„Þetta breytir þau öllu. Þau öðlast meira sjálfstæði ráða hvað þau gera. Það verður enginn að skipta sér af öllum stundum,“ segir Katrín J. Svavarsdóttir, móðir Jóhönnu Maríu, eins þeirra sex einstaklinga sem fyrirhugað er að munu búa í íbúðakjarna sem Hafnarfjarðarbær mun þjónusta. Íbúarnir eru allir með Downs-heilkenni en í dag er alþjóðlegi Downs-dagurinn.

Samningar um þjónustuna voru undirritaðir í janúar, á milli bæjarins og Rekstrarfélags Vinabæjar, sem er hlutafélag í eigu íbúanna og hefur þann tilgang að sjá um þjónustu við þá.

Um er að ræða vinahóp fólks sem er á aldrinum 24 til 28 ára. Þau hafa fylgst að í skóla og skammtímavistun. Þau búa öll í foreldrahúsum og munu, þegar húsið rís, öll flytja að heiman í fyrsta sinn, gangi allt upp. Katrín segir að undirbúningur að verkefninu hafi hafist fyrir fimm til sex árum en drjúgan tíma hafi tekið að koma málinu í gegn um bæjarstjórn. Þar hafi bæjarstjórnaskipti spilað inn í.

Birgir Gíslason er einn sexmenninganna. Hann segir við Fréttablaðið að hann sé mjög spenntur fyrir því að flytja í eigin íbúð, en líka svolítið kvíðinn. „Ég er byrjaður að telja niður,“ segir hann við blaðamann. Birgir segist ekki vita alveg hvenær húsið verður tilbúið en hlakkar til að flytja í það með vinum sínum. Hann segir að þau hafi kynnst í Klettaskóla þegar þau voru yngri. Í dag vinni þau svo, fimm af sex, á sama vinnustað. „Við erum góðir vinir.“

Birgir hefur ekki áhyggjur af því að það verði of mikil viðbrigði að flytja að heiman. Hann nefnir þó að kannski muni vinur hans, Atli Már, eiga erfiðast með það. „Ég mun sakna mömmu minnar,“ segir hann, spurður hvers hann muni sakna að heiman. „En ég mun stundum fara í heimsókn til hennar.“

Samningurinn, sem nú er í höfn, er grunnforsenda þess að hægt sé að hefja undirbúning að því að reisa íbúðirnar. Katrín segir að ýmislegt þurfi að ganga upp áður en þetta verði að veruleika en ýmis skilyrði þurfi að uppfylla svo hægt verði að fjármagna verkefnið. Samningurinn sem náðist kveði á um þjónustuna. „Við þurfum að útvega húsnæði undir þjónustuna. Við gerum þetta, en þetta er bara spurning um útfærslu.“ Hún segir að vonir standi til að fólkið geti flutt inn eftir um tvö ár.

Katrín segir að það að eignast sínar eigin íbúðir muni breyta þau miklu, þó þeim lítist misjafnlega á áformin á þessu stigi. Hún segir að fólk með Downs-heilkennið flytji iðulega mjög seint að heiman. Bygging íbúðanna muni því breyta fjölskyldur þeirra miklu líka. „Við erum í raun í þessum ummönunarhlutverki alltaf. Við þurfum alltaf að vera komin heim klukkan fjögur og það þarf alltaf einhver að vera heima. „Þetta eru krakkar sem maður skilur ekkert eftir ein, en þau geta alveg bjargað sér ef þau vita af vinum sínum í næstu íbúð. Við bindum vonir við að þau verði sjálfstæðari saman.“

Sexmenningarnir og forráðamenn þeirra skrifuðu undir samninginn við bæinn á dögunum. Birgir segir að það hafi verið skemmtilegt. „Það var mjög töff og skrýtið,“ segir hann glaður í bragði.