Stuðningsgreiðslum við sauðfjárrækt hefur verið flýtt um nokkra mánuði til að bregðast við áhrifum kórónaveirufaraldrusins á íslenskan landbúnað. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði reglugerðina sem flýtir greiðslu fjármuna frá september og október til maí og júní.

Aðgerðirnar munu nýtast þeim hópi sauðfjárbænda sem stundar aðra starfsemi samhliða búskap eins og ferðaþjónustu. COVID-19 sjúkdómurinn hefur haft mikil áhrif á ferðaþjónustu hér á landi.

„Undanfarnar vikur höfum við í mínu ráðneyti leitað allra leiða til að lágmarka neikvæð áhrif COVID-19 veirunnar á bæði landbúnað og sjávarútveg til lengri og skemmri tíma. Með þessari breytingu erum við að koma sérstaklega til móts við sauðfjárbændur og reyna að milda höggið sem veiran hefur á starfsemi sauðfjárbænda um allt land,“ segir Kristján Þór.