Áætlað er að nýr sæstrengur verður lagður til Vestmannaeyja sumarið 2025 í stað 2027 en samkvæmt nýrri greiningu verkfræðistofunnar Eflu er samfélagslegur kostnaður um 100 milljónir árlega við að hafa ekki varatengingu til eyjanna en eins og stendur er aðeins einn sæstrengur sem liggur til Vestmannaeyja.
Því hefur, samkvæmt tilkynningu Landsnets, verið ákveðið að flýta lagningu sæstrengsins. Hann hefur verið til umræðu nýlega en í tilkynningu kemur fram að nýr strengur verður 66 kV og verður sambærilegur við Vestamanneyjalínu 3.
Það er strengur sem bilaði fyrr í mánuðinum en fram kemur í tilkynningunni að undirbúningur að viðgerð á honum sé í fullum gangi.
„Flýting Vestmannaeyjarstrengs 4 kemur sér einnig vel við að ná fram samlegðaráhrifum í framkvæmdum Landsnets en lagning sæstrengs yfir Arnarfjörð er einnig á framkvæmdaáætlun. Með því að leggja báða þessa sæstrengi á sama tíma má spara kostnað við strenglagningarskip sem þarf að fá til landsins í verkið og getur sparnaðurinn hlaupið á hundruðum milljóna,“ segir að lokum í tilkynningunni.