Hækkandi hitastig og tilslakanir á útgöngu- og samkomubönnum urðu til þess að almenningur í norðanverðri Evrópu nýtti frídaginn í gær og flykktist á baðstrendur. Yfirvöld og sérfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum af stöðunni.

Í fyrradag lokuðu þrír bæir í norðvesturhluta Frakklands ströndum sínum vegna þess að fólk hafði ekki virt fjarlægðarmörk. Um síðustu helgi voru hundruð stranda í Frakklandi opnaðar fyrir hlaupara, sundfólk og veiðar en ekki fyrir sólböð.

Mikill fjöldi heimsótti strandir Hollands og hvöttu sveitarfélög Þjóðverja til að fara ekki yfir landamærin til að fara á ströndina. Gripið var til þeirra ráða að loka vegum í strandbænum Vlissingen. Í Limburg-Noord, sem er nálægt landamærunum að Þýskalandi, vöruðu yfirvöld við því að þeir sem ekki virtu reglur yrðu sektaðir.

Yfirvöld í Southend á suðurströnd Englands íhuga nú einnig aðgerðir eftir að strandir fylltust af fólki.