Vélsleðamaður, Íslendingur um fimmtugt, slasaðist við Reykjaheiði ofan Dalvíkur í morgun. Björgunarsveitir komu að manninum um klukkan tólf, í Böggvisdal. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti manninn til Akureyrar á sjúkrahús en hann var fótbrotinn og með höfuðmeiðsli.

Elías Þór Höskuldsson, svæðisstjórnarmaður á svæði ellefu, segir í samtali við Fréttablaðið að útkallið hafi borist um klukkan 11:40. Þá höfðu félagar mannsins komið að honum slösuðum og hringt á hjálp. 

Elías segir að veður hafi verið hagstætt; sólrík og lítill vindur. Þó hafi verið kalt. Einhver snjór sé á svæðinu en ekki mjög mikill.

„Aðstæður til flutnings af slysstað voru erfiðar vegna hliðarhalla,“ segir Elías en björgunarsveitarmenn báru manninn upp á hól þar sem þyrlan gat lent. Um 20 björgunarsveitarmenn komu að útkallinu. Þrír sleðar voru sendir frá Dalvík og tveir frá Ólafsfirði.

Elías segist ekki hafa frekari upplýsingar um líðan mannsins en björgunarsveitarmennirnir sem fóru í útkallið voru ekki komnir til baka, þegar Fréttablaðið ræddi við hann.