Kvikmyndagerðarmenn sem dvöldu í rannsóknarkofa á vegum Háskólans í Árósum á Grænlandi fengu heldur óskemmtilega heimsókn aðfaranótt mánudags. Einn þeirra vaknaði við ísbjörn sem brotist hafði inn um glugga í herbergi hans.
Ísbjörninn réðst á manninn, sem er danskur, og beit af krafti í vinstri hönd hans en við það vöknuðu félagar hans. Þeim tókst að reka ísbjörninn á brott með blysbyssu.
Frá þessu er greint á Facebook-síðu Artisk Kommando. Kofinn sem mennirnir dvöldu í er í um 400 metra fjarlægð frá dönsku herstöðinni Daneborg og gerðu þeir hersveitinni Síríus viðvart um árásina.

Tveir hermenn héldu að kofanum og ákveðið var að flytja manninn á herstöðina eftir að þeir höfðu kannað meiðsli hans. Þar var hins vegar enginn læknir og hermenn gerðu að sárum mannsins með lækni í Danmörku sér til aðstoðar.
Þetta þótti ekki duga til að tryggja heilsu mannsins og var hann því fluttur með sjúkraflugi til Akureyrar þar sem hann fór á bráðamóttöku sjúkrahússins á Akureyri. Hann var þó ekki lagður inn, gert var að sárum hans og hann sneri aftur til Grænlands.

Er hermenn frá Síríus kíktu á kofann kom í ljós að ísbjörninn hafði gert tilraun til að komast inn um fleiri glugga en varð ekki kápan úr því klæðinu.
Kvikmyndagerðarmennirnir þrír fóru aftur í rannsóknarkofann og í gærmorgun höfðu þeir samband við Síríus og greindu frá því að ísbjörninn hefði snúið aftur. Hermenn voru sendir á staðinn og fældu björninn í burtu.
Hann var þó ekki lengi að snúa aftur og skemmdi fleiri glugga á kofanum en mönnunum þremur tókst að hrekja hann á brott.
Ísbjörninn hefur lengi verið til vandræða og er flokkaður af grænlenskum stjórnvöldum sem „vandræðabjörn“. Hann hefur fimm sinnum verið til vandræða og er réttdræpur ef hann heldur áfram að áreita mannfólk.