Kristófer Orri Hlynsson er alinn upp á Melstað í Óslandshlíð í Skagafirði og frá því að hann var pjakkur ól hann með sér draum. „Frá barnsaldri hef ég verið ákveðinn í að verða bóndi,“ segir hann.

Kristófer Orri beið ekki boðanna og þegar hann var rétt skriðinn yfir tvítugt flutti hann á eyðibýlið Syðsta-Mó í Flókadal í Fljótum, sem er um 40 kílómetrum frá æskuslóðum hans. „Ég flutti hingað með tólf ær og fór að gera bæinn upp. Bærinn var búinn að vera í eyði í sex ár og því var í mörg horn að líta. Þetta er búin að vera mikil vinna en afar skemmtileg.“

Að sögn Kristófers hafi það þó hjálpað til að finna einstakan hlýhug sveitunga sinna og nágranna. „Það hefur verið alveg stórkostlegt að finna fyrir svona hlýjum móttökum. Það er greinilegt að fólki þykir vænt um að einhver ákveði að byggja upp bæ sem farinn er í eyði.“

Hlýr hugur nágranna náði þó ákveðnu hámarki síðastliðinn föstudag þegar nánast öll sveitin kom hinum unga bónda á óvart með veglegri gjöf. „Mig grunaði að eitthvað væri í gangi því einn var búinn að spyrja mig hvort ég yrði heima þetta kvöld. Skýringin var sú að einhverjir nágrannar vildu kíkja á mig,“ segir hann og bætir við að hann hefði ekki órað fyrir því sem átti eftir að gerast.

„Þeir komu hérna á rútu með kerru aftan í, flestir fjárbændur í sveitinni, og færðu mér fullan vagn af gimbrum að gjöf. Þetta var ótrúlega fallegt af þeim,“ segir Kristófer augljóslega fullur þakklætis. Hann segir að hópurinn hafi síðan farið með hinar nýju gimbrar og bætt þeim við hjörðina sem Kristófer átti fyrir. „Síðan fengum við okkur nokkra bauka, spjölluðum og ræddum hrútaskrána í þaula.“

Með hjálp nágranna sinna hefur hinn tvítugi bóndi því náð að byggja upp rúmlega þrjú hundruð áa bú á eyðibýli í Fljótum. Óhætt er að fullyrða að Kristófer hafi haft mörg járn í eldinum á þessum stutta tíma því ástin knúði einnig dyra. Kristófer kynntist stúlku á þessum tíma. „Hún hefur sem betur fer gaman af búskapnum,“ segir hann.