Guðlaug Jónsdóttir, arkitekt og hönnuður, flutti til Los Angeles þegar hún var aðeins 19 ára gömul og þar hefur hún búið síðan. Hún er þekkt fyrir stórbrotna hönnun hótela og veitingahúsa um allan heim. Gulla nýtur lífsins og frelsisins í Ameríku.
Meðan faraldurinn stóð sem hæst ákvað Gulla að vera á Íslandi og hér var hún í eitt ár. „Yfirleitt þegar ég er á Íslandi þá er ég hjá mömmu en þarna leigði ég mér íbúð í Þingholtunum og fannst frábært að vera þar,“ segir Gulla.
Hún segist hafa notið ársins á Íslandi, hitt vini og fjölskyldu og ferðast mikið. „Af því að ég var á Íslandi en að vinna í Ameríku þá var ég að byrja að vinna klukkan fimm á daginn sem er klukkan níu að morgni í L.A., svo ég hafði svolítið fría daga sem ég notaði í að teikna og skissa eða fara í göngutúr, svo hitti ég starfsfólkið og kúnna úti um allan heim á vídeó-fundum,“ segir Gulla sem vann nánast á hverjum degi í faraldrinum og hélt öllum sínum verkefnum gangandi.
„Flest verkefnin voru í teikningavinnu og allir gátu verið heima hjá sér að vinna, það var ekki byrjað að byggja í mörgum verkefnum svo þetta gekk allt upp,“ segir hún.
„Mér fannst dásamlegt að vera á Íslandi og ég held að ég hafi haft gott af því. Ég hafði verið á miklu flakki út um allan heim og það var gott að staldra aðeins við,“ segir Gulla.
„Mér fannst dásamlegt að vera á Íslandi og ég held að ég hafi haft gott af því. Ég hafði verið á miklu flakki út um allan heim og það var gott að staldra aðeins við“
„Það var svo sætt að mamma kom kannski á hverjum degi með ferskt brauð úr bakaríinu og ég sagði henni að það væri kannski óþarfi að koma með ferskt brauð á hverjum degi en hún sagði bara: Ég hef ekki fengið að dekra við þig sem mamma á hverjum degi í þrjátíu ár svo ég kem með brauð á hverjum degi. Þetta var gaman og gott fyrir okkur báðar,“ segir Gulla og brosir.
„Svo hitti ég pabba og systkini mín og ferðaðist um landið án þess að það væri fullt af túristum, skoðaði til dæmis Vestfirði í fyrsta sinn,“ segir Gulla en hún er einkadóttir móður sinnar en á þrjú systkini hjá pabba sínum, verkfræðingnum og fyrrverandi handboltamanninum Jóni Hjaltalín Magnússyni.
„Það eru mikil forréttindi í því að geta komið í öruggt umhverfi á Íslandi í svona aðstæðum og ég er meðvituð um það og ég held að það hafi verið dásamleg gjöf að geta komið aftur til Íslands og notið þess að vera í öruggu og rólegu umhverfi. Ég var bara þarna, ekki að hoppa upp í flugvél og ferðast í hverri viku,“ segir Gulla.
Það hlýtur að taka ákveðinn toll af þér að ferðast svona mikið?
„Stundum gerir það það, en það er svo fyndið hvað maður venst þessu fljótt og mér finnst þetta auðvitað svo gaman. Oft er það þannig að þegar ég er búin að vera heima í svona tvær, þrjár vikur, þá er ég farin að hugsa: Jæja, hvert fer ég næst?