Guð­laug Jóns­dóttir, arki­tekt og hönnuður, flutti til Los Angeles þegar hún var að­eins 19 ára gömul og þar hefur hún búið síðan. Hún er þekkt fyrir stór­brotna hönnun hótela og veitinga­húsa um allan heim. Gulla nýtur lífsins og frelsisins í Ameríku.

Meðan far­aldurinn stóð sem hæst á­kvað Gulla að vera á Ís­landi og hér var hún í eitt ár. „Yfir­leitt þegar ég er á Ís­landi þá er ég hjá mömmu en þarna leigði ég mér íbúð í Þing­holtunum og fannst frá­bært að vera þar,“ segir Gulla.

Hún segist hafa notið ársins á Ís­landi, hitt vini og fjöl­skyldu og ferðast mikið. „Af því að ég var á Ís­landi en að vinna í Ameríku þá var ég að byrja að vinna klukkan fimm á daginn sem er klukkan níu að morgni í L.A., svo ég hafði svo­lítið fría daga sem ég notaði í að teikna og skissa eða fara í göngu­túr, svo hitti ég starfs­fólkið og kúnna úti um allan heim á vídeó-fundum,“ segir Gulla sem vann nánast á hverjum degi í far­aldrinum og hélt öllum sínum verk­efnum gangandi.

„Flest verk­efnin voru í teikninga­vinnu og allir gátu verið heima hjá sér að vinna, það var ekki byrjað að byggja í mörgum verk­efnum svo þetta gekk allt upp,“ segir hún.

„Mér fannst dá­sam­legt að vera á Ís­landi og ég held að ég hafi haft gott af því. Ég hafði verið á miklu flakki út um allan heim og það var gott að staldra að­eins við,“ segir Gulla.

„Mér fannst dá­sam­legt að vera á Ís­landi og ég held að ég hafi haft gott af því. Ég hafði verið á miklu flakki út um allan heim og það var gott að staldra að­eins við“

„Það var svo sætt að mamma kom kannski á hverjum degi með ferskt brauð úr bakaríinu og ég sagði henni að það væri kannski ó­þarfi að koma með ferskt brauð á hverjum degi en hún sagði bara: Ég hef ekki fengið að dekra við þig sem mamma á hverjum degi í þrjá­tíu ár svo ég kem með brauð á hverjum degi. Þetta var gaman og gott fyrir okkur báðar,“ segir Gulla og brosir.

„Svo hitti ég pabba og syst­kini mín og ferðaðist um landið án þess að það væri fullt af túr­istum, skoðaði til dæmis Vest­firði í fyrsta sinn,“ segir Gulla en hún er einka­dóttir móður sinnar en á þrjú syst­kini hjá pabba sínum, verk­fræðingnum og fyrr­verandi hand­bolta­manninum Jóni Hjalta­lín Magnús­syni.

„Það eru mikil for­réttindi í því að geta komið í öruggt um­hverfi á Ís­landi í svona að­stæðum og ég er með­vituð um það og ég held að það hafi verið dá­sam­leg gjöf að geta komið aftur til Ís­lands og notið þess að vera í öruggu og ró­legu um­hverfi. Ég var bara þarna, ekki að hoppa upp í flug­vél og ferðast í hverri viku,“ segir Gulla.

Það hlýtur að taka á­kveðinn toll af þér að ferðast svona mikið?

„Stundum gerir það það, en það er svo fyndið hvað maður venst þessu fljótt og mér finnst þetta auð­vitað svo gaman. Oft er það þannig að þegar ég er búin að vera heima í svona tvær, þrjár vikur, þá er ég farin að hugsa: Jæja, hvert fer ég næst?