Tveir einstaklingar hlutu í dag fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að flytja kókaín, sem var falið í fjölda pakkninga innvortis, til landsins. Báðir fengu tíu mánaða dóm.

Efnin voru flutt til Keflavíkurflugvallar þann 13. nóvember í fyrra.

Í öðru málinu var um að ræða  637 grömm af kókaíni, falin í 104 pakkningum. styrkleiki efnanna var á bilinu 74 til 78 prósent.

Í hinu málinu var um að ræða 707 grömm af kókaíni sem voru falin í 55 pakkningum, en styrkleiki þeirra var á bilinu 75 til 84 prósent. Þó kom fram fyrir dómi að vafi væri á um hvort pakkningarnar væru 47 talsins, og innflutt magn ívið minna 707 grömm.

Fram kemur í dómi annars málsins að ekki sé talið að sakborningurinn væri eigandi efnanna, eða að hann hefði tekið þátt í kaupum að skipulagningu innflutningsins, nema með því að samþykkja að flytja þau til landsins.

Líkt og áður segir hlutu báðir einstaklingarnir tíu mánaða dóm, og þá er þeim einnig báðum  gert að greiða rúmlega tvær milljónir í sakarkostnað.