Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð flutti í gær framboðsræðu á pólsku. Hann segist í samtali við Fréttablaðið ekki vita til þess að íslenskur frambjóðandi hafi farið með framboðsræðu á pólsku áður.
Hann segir flokkinn hafa fengið mjög góð viðbrögð við myndbandinu.
„Ég veit til þess að við í Sjálfstæðisflokknum höfum verið með stutt skilaboð á pólsku en ekki svona ávarp,“ sagði Ragnar. Hann segist ekki tala pólsku sjálfur en er áhugasamur á að finna bót á því.
Á Facebook síðu sinni segir Ragnar um 850 íbúa Fjarðabyggðar hafa erlent ríkisfang. Hann segir Fjarðabyggð hafa notið góðs af þeim íbúum sem hafa flust til sveitarfélagsins. „Við skuldum þessu fólki svolítið að við opnum aðeins á samskiptin og bjóðum þau betur velkomin með því að nálgast þau meira á þeirra móðurmáli,“ sagði Ragnar í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir Sjálfstæðisflokkinn í Fjarðabyggð hafa verið duglegan að höfða til pólskumælandi íbúa, „við tókum til dæmis upp á því að hafa framboðsfundi á pólsku“, sagði Ragnar. Hann segir þá fundi hafa verið fjölsótta, bæði af þeim Pólverjum sem lært hafa íslensku sem og þeim sem tala einungis pólsku.
„Við þurfum aðeins að fara dýpra í stjórnmálaumræðuna, þau hafa áhuga og þau vilja taka þátt en við þurfum að leggja okkur fram til að ná til þeirra,“ sagði Ragnar.
Samkvæmt Stjórnarráðinu eru tæplega 14 þúsund Pólverjar á kjörskrá fyrir komandi sveitastjórnarkosningar. Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að tæplega 32 þúsund erlendir ríkisborgarar séu á kjörskrá fyrir kosningarnar. Hlutfall útlendinga á kjörskrá er því orðið 11,4 prósent.