Kona var ný­lega sak­felld í héraðsdómi fyrir að hafa brotið á sam­starfs­konu kyn­ferðis­lega í vinnu­ferð til Reykja­víkur. Gerandi var dæmdur í tveggja mánaða skil­orðs­bundið fangelsi og gert að greiða 450 þúsund í skaða­bætur auk máls­kostnaðar.

Nokkrir í­búar Horna­fjarðar hafa lýst yfir ó­sætti yfir því hvernig málið var af­greitt innan sveitar­fé­lagsins þar sem konurnar báðar bjuggu og störfuðu, sam­kvæmt um­fjöllun DV um málið. Konurnar unnu báðar í stjórnunar­stöðum í fé­lags­lega kerfinu á Horna­firði. Eftir at­vikið hafi gerandinn haldið á­fram störfum en þolandinn ekki farið aftur til starfa á Horna­firði.

Gerandi var ekki sendur í leyfi eða vikið frá störfum eftir að bæjar­stjórn barst vit­neskja um atvikið. Hún hélt á­fram störfum eftir að kæra var lögð fram stuttu seinna en hún hafði þá verið ný­lega færð til í starfi og gegnir nú skrif­stofu­starfi hjá hjúkrunar­heimilinu og hefur ekki manna­for­ráð.

Þolandinn hafði sagt upp störfum skömmu áður en at­vikið átti sér stað. Hún kom hins vegar ekki aftur til Horna­fjarðar og vann ekki upp­sagnar­frest sinn. Sam­kvæmt heimildum DV er á­stæðan rakin til van­líðunar hennar eftir at­vikið.

Þjáist af áfallastreituröskun og þunglyndi eftir atvikið

At­vikið átti sér stað á hótel­her­bergi við Rauðar­ár­stíg þar sem nokkar konur frá Horna­firði gistu í vinnu­ferð til Reykja­víkur. Konurnar tvær sem um ræðir höfðu rifist harka­lega um vinnu­tengd mál­efni og gerandinn bankaði upp á hjá þolanda til að leita sátta. Þær fóru svo báðar að sofa í rúmi þolandans.

Um nóttina vaknaði þolandinn við það að gerandinn hafði tekið um hönd hennar og lét hana strjúka nöktum líkama sínum. Þolandi gaf til kynna að hún vildi það ekki en þá hafi gerandi strokið henni frá brjóstum niður á læri. Þolandi færði sig út á brún rúmsins og vafði um sig sænginni en gerandi lagði þá and­lit sitt upp að and­liti hennar og sagði: „Við skulum bara hafa það kósý. Er þetta ekki gott? Er þetta ekki bara bara kósý?“

Þolandinn fór út af her­bergi sínu eftir at­vikið og bankaði upp á hjá sam­starfs­konu sinni. Hún greindi henni frá at­vikinu og fleiri konur í ferðinni fengu einnig fregnirnar. Vitnis­burður þeirra var á þá leið að at­vikið hafi valdið konunni mikilli van­líðan. Sál­fræðingur bar vitni um að hún þjáðist af á­falla­streitu­röskun og þung­lyndi eftir at­vikið.

Lesa um­fjöllun DV í heild sinni.