Hinn kínverski Wei Li flaug í síðustu viku til Íslands með rúmlega 170 kílógrömm af íslenskri mynt en andvirðið er um 1,6 milljónir króna. Þetta er í þriðja sinn sem Li fjármagnar Íslandsferð með þessum hætti og hafa fyrri ferðir gengið snurðulaust fyrir sig. Núna er hins vegar komið babb í bátinn.

Í farangri Wei Li, sem býr í nágrenni Hong Kong, er eingöngu 100 krónu mynt. „Það borgar sig ekki að kaupa yfirvigt fyrir smærri mynt,“ segir Li. Peningarnir eru í misjöfnu ástandi. Sumir alveg heilir, einhverjir talsvert skemmdir og aðrir nánast skornir í tvennt. Við komuna til landsins fór Wei Li í Seðlabanka Íslands til þess að skipta peningunum í handhægari stærðir en var vísað frá. Það kom honum verulega á óvart enda hefur hann tvisvar áður fengið að skipta mynt hérlendis.

Eftir sneypuförina í Seðlabankann fór Li í útibú Arion banka til þessa að freista þess að skipta peningunum. Þar tók ekki betra við því þar hafði hann ekki verið nema í nokkrar mínútur þegar átta lögreglumenn komu á vettvang og spurðu hann spjörunum úr.

FB-Ernir200209-Wei-05.jpg

Ástand peninganna er æði misjafnt

Wei Li segist skilja vel að athæfi hans veki furðu en hann fari að lögum og reglum. Lögin séu skýr en framganga yfirvalda sé það ekki.

„Ég fæ myntina frá myntbraskara úti í Kína. Ég veit ekki hvaðan allt kemur en hluti kemur frá endurvinnslufyrirtæki sem kaupir samanpressaða bíla frá Íslandi. Þar leynist mikið af mynt,“ segir Li. Fyrirkomulagið er þannig að hann borgar ekki krónu fyrir myntina nema ef honum tekst að skipta henni hérlendis. Þá fær myntbraskarinn sanngjarnan hlut.

„Ég gaf allt upp við komuna til landsins,“ segir Li og sýnir kvittun þess efnis. Hann segist nota ágóðann til að ferðast um Ísland enda fallegasta land heims að hans mati.

Hann segist hafa komið tvisvar í slíkar heimsóknir til Íslands á síðasta ári og alltaf hafi viðskiptin gengið snurðulaust fyrir sig. „Í síðasta skipti fékk ég upplýsingar frá starfsmanni Seðlabankans um að til stæði að breyta reglunum. Ég hafði því samband fyrir þessa ferð og sá að reglurnar væru óbreyttar. Þess vegna skil ég ekki af hverju ég fæ ekki að skipta myntinni,“ segir Li.

FB-Ernir200209-Wei-04.jpg

Bílaleigubíll Wei Li er fullur af peningum

Hann hefur ferðast til annarra landa í sama tilgangi, meðal annars Danmerkur, Noregs og Þýskalands. Þar séu reglurnar skýrar en ekki handahófskenndar eins og hér. „Í Danmörku taka þeir 6 prósent þóknun af upphæðinni sem mér finnst sanngjarnt og eðlilegt.

Í Þýskalandi taka þeir við allri mynt, skoða hana nánar og borga svo fyrir þá mynt sem er í lagi. Það er líka góð regla," segir Wei Li. Að hans mati er þó mikilvægast að farið sé eftir lögum og reglum en það virðist Seðlabankinn ekki ætla að gera. „Það er alveg skýrt samkvæmt upplýsingum á ensku sem eru á heimasíðu bankans að bankinn á að taka við allri mynt, jafnvel þó hún sé skemmd," segir Li.


FB-Ernir200209-Wei-02.jpg

Opinn fyrir því að gefa hluta af sjóði sínum til íslenskra góðgerðasamtaka

Eins og áður segir er sjóður hans í misjöfnu ástandi en sumar myntir eru þó alveg heilar. „Ég get notað heilu myntina í verslunum en ég vil síður nota skemmdu myntina. Ég væri opinn fyrir því að gefa skemmdu myntina til góðgerðarmála hérlendis enda er hún að óbreyttu gagnslaus fyrir mig,“ segir Li.

Hann segist hafa gert tilraunir til þess og meðal annars reynt að banka uppá hjá Rauða Krossi Ísland. „Þar hefur enginn verið við um helgina og ég veit því ekki hvort að samtökin taki við slíkri gjöf," segir hinn fjáði en þjáði Wei Li.