Helena Rós Sturludóttir
Föstudagur 3. desember 2021
05.00 GMT

Á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni búa nú 144 fatlaðir einstaklingar, sem eru undir 67 ára, á hjúkrunarheimilum.

María Fjóla Harðardóttir, varaformaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og forstjóri Hrafnistu, segir stjórnendur hjúkrunarheimila margoft hafa rætt þessi mál við heilbrigðisráðuneytið og að alvarlegar athugasemdir hafi verið gerðar.

Það sé ekki vænlegt fyrir neinn að blanda þessum hópum saman eins og ríkið geri í dag.

Fjöldi einstaklinga undir 67 ára sem búa á hjúkrunarheimilum miðað við daginn í dag.
Fréttablaðið/Rebekka Líf

Allt aðrar þarfir

María Fjóla segir þjónustu hjúkrunarheimila sniðna fyrir aldraða og að fá einstaklinga sem hafa allt aðrar þarfir en aðrir íbúar heimilanna flæki málin umtalsvert.

Þá sé hjúkrun ungra einstaklinga oft flóknari, bæði líkamlega og andlega, það geti reynt töluvert á starfsmannahóp hjúkrunarheimila sem sé að stórum hluta ekki með faglega menntun.

María Fjóla segir mikilvægt að skoða aðrar leiðir til að koma til móts við þennan hóp, ekki sé hægt að bjóða honum upp á þessar aðstæður.


Það þýðir að ef ungur einstaklingur býr á deildinni í 30 ár þá getur hann eignast nýjan nágranna 15 sinnum á því tímabili.


Að sögn Maríu Fjólu er meðaldvalartími eldri einstaklinga í hjúkrunarrými um tvö til þrjú ár. Yngri einstaklingar séu líklegri til að dvelja um áratugaskeið.

„Það þýðir að ef ungur einstaklingur býr á deildinni í 30 ár þá getur hann eignast nýjan nágranna 15 sinnum á því tímabili.

Þessu þarf að breyta og höfum við hingað til verið til í þá vinnu og erum sannarlega til í þá vinnu með nýjum heilbrigðisráðherra,“ segir María Fjóla.

Fjöldinn eykst með ári hverju.
Fréttablaðið/Rebekka Líf

Eiga ekkert val

Jón Þór Víglundsson, fjölmiðlafulltrúi Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), segir gott að úrræðið standi til boða fyrir einstaklinga með fötlun. Mikilvægast af öllu sé að þetta sé val einstaklinganna.

Það sé þó ekki alltaf raunin, stundum standi einstaklingar frammi fyrir því að fá annað hvort enga þjónustu eða þiggja boð um að dvelja á hjúkrunarheimili. „Það er ekki val,“ segir Jón Þór.

Undir þetta tekur Valdís Ösp Árnadóttir, verkefnastjóri ÖBÍ. „Eins og hvernig þetta horfir við okkur þá í raun og veru hefur fólk ekki mikið val. Því er dálítið stýrt í þessa átt.“

Margrét Sigríður Guðmundsdóttir er 59 ára með MS taugasjúkdóminn og hefur búið á hjúkrunarheimili í ár, gegn vilja sínum. Hún segir ólíklegt að einstaklingar í svipuðum sporum velji að búa á hjúkrunarheimili.

Ítarlega er rætt við Margréti um málið í helgarblaði Fréttablaðsins á morgun ásamt Bergþóru Bergsdóttur sem einnig er með MS sjúkdóminn.

Jón Þór Víglundsson, fjölmiðlafulltrúi Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) og Valdís Ösp Árnadóttir, verkefnastjóri ÖBÍ.
Mynd/Samsett

Missa öll réttindi

Valdís Ösp segir fatlaða einstaklinga sem fara inn á hjúkrunarheimili missa öll félagsleg réttindi. Lífsgæðum sé í raun og veru fórnað.

Í ályktun ÖBÍ um ungt fólk á hjúkrunarheimilum sem send var út í fyrra eru gerðar alvarlegar athugasemdir við stöðu fatlaðs fólks undir 67 ára aldri sem er vistað gegn vilja sínum á hjúkrunarheimilum. Dvöl á hjúkrunarheimilum geti takmarkað persónufrelsi, athafnafrelsi og friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Þar segir einnig að sveitarfélög þurfi að fylgja lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem samþykkt voru árið 2018 en ekki sveigja þau eftir eigin geðþótta og beina fötluðum inn á stofnanir.

Þá þurfi stjórnvöld að stöðva kvótasetningu og tímatakmarkanir á þjónustu sem veitir fötluðu fólki sjálfstæði og reisn líkt og NPA-samningum eða aukinni þjónustu heim.


Fólk vill geta lifað sínu sjálfstæða lífi þó það sé mikið fatlað.


Að sögn Jóns Þórs sé alveg ljóst að skortur sé á búsetuúrræðum fyrir fatlaða. „Allt of fáar íbúðir eru í boði, þörfin er mikil og fer ekki minnkandi. Krafan er fyrst og fremst sjálfstæði. Fólk vill geta lifað sínu sjálfstæða lífi þó það sé mikið fatlað,“ segir Jón Þór.

María Fjóla segir að til séu sér rými fyrir yngri sjúklinga á sumum hjúkrunarheimilum en öðrum ekki.

„Ekki hefur fengist að fá fleiri rými fyrir unga hjúkrunarsjúklinga frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), þótt þeir dvelji á hjúkrunarheimilinu. Tilnefningum inn á hjúkrunarheimili er stýrt af Færni- og heilsumatsnefnd og er löglegt ef horft er í lög og reglugerðir. En reynslan er sú að yngri einstaklingar eiga ekki samleið með hrumum, veikum, öldruðum nema á sér deildum,“ segir María Fjóla.

Mannleg reisn fatlaðra tryggð

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um að tryggja skuli fötluðu fólki mannlega reisn, sjálfræði og sjálfstæði. Þeim skuli standa til boða þjónusta sem er nauðsynleg til þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar og að komið sé í veg fyrir félagslega einangrun þess.

Í lögum um þjónustu við fatlað fólk segir að markmið þeirra sé að gefa fötluðum einstaklingum kost á bestu þjónustu sem unnt sé að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þeirra. Þjónustan skuli miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til að geta notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Þá skuli borin virðing fyrir mannlegri reisn fatlaðra einstaklinga við framkvæmd þjónustu til þeirra, sjálfræði og sjálfstæði þeirra.

Vísa hvert á annað

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar segir að fötluðum einstaklingum sé einungis boðið pláss á hjúkrunarheimili sé staðan metin svo að fólk geti ekki lengur búið heima þrátt fyrir stuðning frá heilbrigðis- og félagsþjónustu.

„Þau sem fá pláss á hjúkrunarheimili hafa áður gengist undir færni- og heilsumat hjá Færni- og heilsumatsnefndum sem meta hvort einstaklingar hafa þörf fyrir sólarhringsheilbrigðisþjónustu.“

Í svari velferðarsviðs segir einnig að það sé ekki á þess hendi að úthluta plássum á hjúkrunarheimili, „enda er heilbrigðisþjónusta á ábyrgð ríkisins en ekki sveitarfélaga.“

„Velferðarsvið tekur hins vegar undir að allt of algengt er að einstaklingar undir 67 ára aldri búi á hjúkrunarheimilum. Full þörf er á því að byggja upp úrræði fyrir einstaklinga sem eru undir 67 ára aldri en hafa hjúkrunarþarfir umfram þær sem hægt er að sinna inni á heimilum þeirra.“

Heilbrigðisráðuneytinu er kunnugt um þróunina og segir hana til skoðunar hjá sér. Þá vísar ráðuneytið sérstaklega til laga um málefni aldraðra um heimild til búsetu yngra fólks á hjúkrunarheimilum.

Um þjónustu fyrir yngra fólk, á borð við NPA, sem gæti komið í stað vistunar á hjúkrunarheimilum, vísar ráðuneytið á sveitarfélögin.

Forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar

Ráðuneytið vísar einnig til stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um að í forgangi sé að bæta afkomu og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum þar sem lögð verður rík áhersla á val einstaklinga. Meðal annars með auknu samráði ríkis og með því að festa í sessi framtíðarfyrirkomulag NPA-þjónustu fyrir þá sem þess þurfa.

Félagsmálaráðuneytið segir að starfshópur hafi verið skipaður 21. janúar síðastliðinn um heildarendurskoðun laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og að hann muni skila tillögum í byrjun næsta árs.

Athugasemdir