Samtök sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, SSH, telja að flutningur opinberra starfa út á landsbyggðina eigi ekki að vera markmið í sjálfu sér. Einnig að hætta verði að líta á höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina sem andstæðar fylkingar.

„Það á ekki að vera markmið í sjálfu sér að dreifa störfum ef í því felst ekki hagkvæmni fyrir samfélagið,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH. „Hvert tilfelli þarf því að meta hlutlægt og faglega.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, birti í maí stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára, svokallaða hvítbók um byggðamál til samráðs. Þar er meðal annars fjallað um staðarval ríkisstarfa, störf án staðsetningar og fjarvinnslustöðvar.

Verði stuðlað að því að dreifa ríkisstörfum með jafnari hætti, út fyrir hið svokallaða Hvítár-Hvítár-svæði. Það er frá Borgarnesi að Selfossi, sem sé vinnusóknarsvæði borgarinnar. Muni stofnanir fá framlag fyrir allt að 80 prósentum af kostnaði við hvert slíkt stöðugildi.

Bent hefur verið á að halli á landsbyggðina þegar kemur að ríkisstörfum. Á höfuðborgarsvæðinu búi 64 prósent landsmanna, en þau hafi 71 prósent opinberra starfa.

Ýmsar stofnanir hafa hins vegar verið færðar á landsbyggðina, svo sem Fæðingarorlofssjóður til Hvammstanga, Fiskistofa til Akureyrar og Greiðslustofa atvinnuleysistrygginga til Skagastrandar. Aðspurður um einstaka flutninga segir Páll að SSH hafi ekki skoðanir á þeim.

„Það er skoðun SSH að andinn í byggðaáætlunum sé yfirleitt á þá leið að í megindráttum er ekki verið að horfa á þessa stefnumótun fyrir landið í heild,“ segir Páll. „Eðlilega, miðað við núverandi löggjöf, er áherslan á almennar og sértækar byggðaaðgerðir á landsbyggðinni, en það verður að horfa á verkefni byggðamála út frá öllu landinu, þar á meðal höfuðborgarsvæðinu.“

Bendir hann á að á höfuðborgarsvæðinu starfi öflug fyrirtæki sem geti stutt við landsbyggðina, svo sem í samgöngum og úrgangsmálum. Saknar hann þess að enn hafi ekki verið gerð höfuðborgaráætlun, eins og stefnt hafi verið að í fyrri byggðaáætlunum. Rétt eins og landsbyggðin verði höfuðborgarsvæðið að vera samkeppnishæft.

„Eins og bent er á í hvítbók um byggðaáætlun þarf að bregðast við harðnandi, alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki,“ segir Páll. „Því þarf í byggðaáætlun að leggja áherslu á samkeppnishæfni landsins alls og þar verður höfuðborgarsvæðið ekki undanskilið.“