Danska frystiskipið Ulla var hætt komið aðfaranótt miðvikudags þegar farmurinn færðist til í vonskuveðri. Kom slagsíða á skipið og fylgdu tvö íslensk skip því til Vestmannaeyja.

„Þeim hefur ábyggilega ekki staðið á sama,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni, um skipverjana sex sem lentu í þessum hremmingum.

Ulla var að sækja frosinn fisk í blokkum í Sandgerði og flytja hann til Danmerkur þegar óhappið varð sunnan við landið, upp úr miðnætti.„Það var skítabræla, vestan- og svo norðvestanátt. Þegar þeir hafa samband telja þeir að það sé komin þriggja gráða slagsíða á skipið. Farmurinn hafði þá færst til,“ segir Ásgrímur.

Slagsíða er þegar stöðugleiki skips fer úr jafnvægi og það byrjar að halla á annan hvorn veginn. Þetta getur undið upp á sig í keðjuverkun eins og raunin varð í tilfelli Ullu, en þegar skipið kom til Eyja var slagsíðan orðin 10 til 15 gráður. Verði slagsíðan of mikil getur skip farið á hliðina.

„Það var hætta á ferðum,“ segir Ásgrímur og að í ljósi ástandsins hafi Ullu verið leyft að sigla nær landi en reglur segja til um. Varðskipið Þór, sem var á Faxaflóa, var sent til Ullu til að geta brugðist hratt við ef aðstæður versnuðu. Ullu var siglt til Eyja á þeim hraða sem talið var öruggast að viðhafa og tók hafnsögubátur Eyjamanna, Lóðsinn, á móti þeim.

„Þeir gerðu rétt í að hafa samband við Landhelgisgæsluna og óska eftir þeirri aðstoð sem þeir gátu fengið,“ segir Ásgrímur.