Flutningaflugvél Bláfugls rann til á akbraut á Keflavíkurflugvelli í morgun. Um borð í vélinni voru tveir flugmenn en hvorugur þeirra er slasaður. Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, við Fréttablaðið en RÚV greindi fyrst frá málinu.

Vélin lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 07:50 í morgun en um fimm mínútum eftir lendingu rann hún til á akbraut og lenti nefhjól hennar utan brautarinnar. Vélin var að koma frá East Midlands Airport í Bretlandi.

Slysið mun ekki koma til með að hafa áhrif á flugumferð á vellinum í dag.

Ekki er vitað hvert tjónið varð á vélinni en rannsakendur frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa eru komnir á staðinn og stendur vettvangsrannsókn nú yfir á svæðinu. Nefndin hefur ekki frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Fréttin hefur verið uppfærð.