Spretthópur sérfræðinga ræðir nú uppbyggingu nýs hverfis í Skerjafirði. Búist er við að hópurinn skili af sér niðurstöðu 1. október.
„Við þurfum á allri húsnæðisuppbyggingu að halda, þar á meðal þar. Þetta er stór hluti af okkar plönum á þessu ári og því næsta. Þetta er í faglegu ferli núna,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði á upphafsfundi um framkvæmd rammasamnings milli ríkis og sveitarfélaga um aukningu framboðs á húsnæði að lóðaframboð væri lykilþáttur í uppbyggingu húsnæðis. Hann er þó ekki tilbúinn að styðja nýtt hverfi í Skerjafirði þrátt fyrir að lóðir séu þar í boði.
„Ráðherra mun hvorki geta fallist á að farið verði í umræddar framkvæmdir í Skerjafirði né aðrar slíkar framkvæmdir í næsta nágrenni við flugvöllinn nema sýnt hafi verið með óyggjandi hætti fram á að flugöryggi og rekstraröryggi sé ekki stefnt í hættu,“ sagði í svari Sigurðar Inga til Þorgríms Sigmundssonar, varaþingmanns Miðflokksins, um hvort ráðherra myndi styðja hverfi í Nýja-Skerjafirði.