Boeing flug­vél China Ea­stern Air­lines sem hrapaði í morgun í Kína virðist hrapa ­beint niður í mynd­skeiði sem hefur verið dreift víða af slysinu.

Fram hefur komið í fjöl­miðlum í dag að enginn er talinn hafa lifað flug­slysið af. Flug­fé­lagið segir í yfir­lýsingu að þau syrgi dauða far­þega og starfs­fólks án þess þó að taka fram hversu margir létust í slysinu. Frá þessu er greint á vef Reu­ters.

Tvö mynd­bönd hafa farið víða af slysinu en alls voru 132 um borð í vélinni, 123 far­þegar og níu starfs­menn. Annað mynd­bandið er lík­lega tekið í mynda­vél bíls en á vef Reu­ters kemur þó fram að þeim hafi ekki tekist að sann­reyna að mynd­bandið sé af slysinu. Myndböndin má sjá hér að neðan.

Engir erlendir ríkisborgara um borð

Flugið, MU5375, var á leið frá borginni Kun­ming sem er borg í suð­vestur­hluta Kína, til Guangz­hou, sem er borg syðst í landinu.

China Ea­stern segir að að­dragandi og á­stæða slyssins sé í rann­sókn en sam­kvæmt vefnum Flight­radar24 hrapaði vélin hratt. Á vefnum kom fram að vélin, sem er sex ára gömul, hafi flogið á jöfnuð hraða í 29 þúsund fetum klukkan 6.20 um morguninn en svo um tveimur mínútum síðar var hún komin í um níu þúsund fet. Tuttugu sekúndum síðar var hún í 3.225 fetum.

Sam­kvæmt vef Reu­ters kom fram hjá Boeing í fyrra að að­eins 13 prósent flug­slysa á sér stað þegar flug­vélar eru í miðju flugi, flest eiga þau sér stað í flug­taki eða lendingu.

Flug­fé­lagið hefur sett upp síma­línu fyrir að­stand­endur þeirra látnu auk þess sem þau hafa sent starfs­hóp á vett­vang. Engir er­lendir ríkis­borgarar voru um borð í vélinni að sögn kín­verskra miðla.