Isavia og björgunarsveitin Hérað veittu slökkviliði Múlaþings aðstoð í kvöld við að ná tökum á eldinum sem kom upp í húsi Vasks á Egilsstöðum.

Öflugir flugvallarslökkvibílar frá Egilsstaðaflugvelli nýttust vel til að dæla vatni á þakið og inn í bygginguna. Enginn slasaðist í brunanum.

Verða að störfum fram á nótt

Slökkvistarf gengur vel að sögn Haralds Geirs Eðvaldssonar, slökkviliðsstjóra slökkviliðs Múlaþings. Búið er að ná tökum á eldinum og koma í veg fyrir að hann breiðist yfir í hinn endann á húsinu að mestu leyti.

„Við erum að draga úr viðbúnaði. Nú bíðum við eftir kranabíl til að taka þakið og tína rusl innan úr húsinu. Þannig komumst við í glæðurnar,“ segir Haraldur.

Slökkvilið verður sennilega fram á nótt að störfum og verða áfram götulokanir frá lögreglustöðinni á Egilsstöðum og að gatnamótunum á Borgarfjarðarvegi og inn í iðnaðarhverfið sunnan við húsið sem brennur.

Kolsvartur reykurinn er baneitraður að sögn slökkviliðsstjóra. Inni í húsinu voru eiturefni og á þakinu mátti finna plasteinangrun.
Mynd: Unnar Erlingsson

Baneitraður reykur

Kolsvartur reykurinn, sem leggur frá húsinu, er baneitraður að sögn slökkviliðsstjóra. Svo virðist sem þakeiningarnar hafi verið með plasteinangrun og inni í efnalauginni brunnu ýmis efni sem urðu fljótt eitruð í eldsvoðanum.

„Það er ekki gott að að vera nálægt þessu. Reykurinn leggur hér yfir bæinn og það virkilega slæmt með þeirri vindátt sem var áðan. Þetta er mikil mengun og mikið eitur í þessum reyk.“

Dregið úr viðbúnaði. Næst þarf slökkvilið að slökkva glæðurnar.
Mynd: Unnar Erlingsson

Slökkviliðsmenn notuðu reykköfunargrímur við slökkvistörf. „Það var alveg nauðsynlegt þegar svona hættulegar aðstæður sköpuðust.“ Haraldur segir slökkvilið þakklátt fyrir aðstoð björgunarsveita og Isavia.

„Þetta var samstillt átak hér á Egilsstöðum með aðstoð frá Isavia og björgunarsveitinni Héraði. Þetta kerfi vinnur allt saman og allir lögðust á eitt.“