Isavia hefur sagt tveimur flugumferðarstjórum upp störfum vegna atviks á skemmtun Félags flugumferðarstjóra í fyrra. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Isavia. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um meint kynferðisbrot að ræða gegn nema í flugumferðarstjórn.

„Við höfum enga sérstaka ástæðu til að ætla annað en að uppsögnin sé að ígunduðu máli og á faglegum grundvelli,“ segir Arnar Hjálmsson, formaður Félags flugumferðarstjóra.

Um er að ræða tvo menn sem hafa báðir verið í Félagi flugumferðarstjóra í hartnær tvo áratugi að sögn Arnars. Hann vill ekki segja hvað ásakanir nákvæmlega eru uppi gagnvart mönnunum.

Í tilkynningu Isavia segir:

Í kjölfar skemmtunar á vegum Félags íslenskra flugumferðastjóra á síðasta ári kom upp alvarlegt atvik sem leiddi til þess að tveir starfsmenn Isavia ANS, dótturfélags Isavia ohf., voru kærðir til lögreglu. Í ljósi alvarleika málsins voru starfsmennirnir tveir þá þegar færðir til í starfi og hefur nú verið sagt upp störfum. Það er mat félagsins að um ólíðandi hegðun hafi verið að ræða og samræmist hún engan veginn því sem Isavia ANS stendur fyrir. Öllum hlutaðeigandi hafa staðið til boða stuðningsúrræði vegna málsins.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia vildi ekki tjá sig frekar um málið við Fréttablaðið að öðru leyti en að um sorglegt mál sé að ræða.

„Við höfum enga sérstaka ástæðu til að ætla annað en að uppsögnin sé að ígunduðu máli og á faglegum grundvelli.“

„Það er ekki langt síðan við fengum veður af þessu máli,“ segir Arnar. „Það er ekkert sérstakt að gerast innan okkar herbúða, við erum bara að skoða þetta í rólegheitum og höfum sett okkur inn í aðalatriðin. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um einhverjar aðgerðir af hálfu okkar.“