Flugumferð um Keflavíkurflugvöll jókst umtalsvert á síðasta ári samanborið við árið þar á undan, en er þó enn þá ekki nema svipur hjá sjón frá því áður en áhrifa heimsfaraldursins fór að gæta. 8.511 brottfarir voru frá Keflavík 2021.

Ef tölur um allt áætlunar- og leiguflug um völlinn á síðustu árum eru skoðaðar sést að brottfarir véla voru hátt í 30 þúsund árið 2018, en nokkru færri, eða ríflega 22 þúsund ári seinna. Pestarárið 2020 varð svo algert hrun í flugumferðinni um Keflavíkurflugvöll þegar brottfarir véla voru aðeins rösklega fimm þúsund.

Heldur tosaðist umferðin upp á síðasta ári, sem þó var litlu minna pestarár en 2020, en tölurnar sýna að flugumferð á nýliðnu ári var langt frá því að ná helmingnum af því sem hún var 2019 og meira en þrefalt minni en árið 2018 sem var metár í flugumferð um völlinn – og síðasta heila starfsár flugfélagsins WOW sem varð gjaldþrota í mars 2019.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia segir að engar spár liggi fyrir um flugumferð um Keflavíkurflugvöll á nýju ári, en forsvarsmenn félagsins hafi lagt af slíkar spár eftir að farsóttin kom til sögunnar, enda hafi hún breytt svo til öllum forsendum í slíkri áætlanagerð.