Farþegar í flugi Wizz air frá Napólí um eftirmiðdegi í gær voru í óvenjulegri stöðu þegar þeir flugu yfir nýhafið eldgos í Meradölum í gær. Þó gerðu fæstir farþegar sér grein fyrir stöðunni en áhöfnin fékk tilkynningu um leið og gosið hófst.

Einhverjum kann að þykja grátbroslegt að ferðamenn sem keyptu sér ferð hingað til lands til þess að skoða íslenska náttúru hafi ekki áttað sig á eldsumbrotunum fyrir neðan.

Í því samhengi má nefna að ásókn í einkaflug með þyrlu og léttum flugvélum var mikil þegar eldgos í Geldingadölum hófst 19. mars 2021 og stóð til 18. september, og hleypur slík ferð á tugum og jafnvel hundruðum þúsunda króna.

Þegar farþegar lentu á Keflavíkurflugvelli barst þeim tilkynning frá Almannavörnum sem varaði við ferðalögum nálægt gossvæðinu.

Vélin lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 15:43 með seinkun, en áætlaður lendingartími var 14:30. Eldgosið í Meradölum hófst í gær um klukkan 13:30.

Uppselt var í flugið og var undirritaður blaðamaður Fréttablaðsins meðal farþega.

Farþegar á Keflavíkurflugvelli klukkan 16:00 í gær virtust lítið pæla í eldgosi á Reykjanesskaganum. Ferðamenn sem blaðamaður ræddi við sögðust ekki hafa vitað af eldsumbrotunum.
Fréttablaðið/Nína Richter
Strókar frá eldgosinu sáust vel frá Reykjanesbrautinni um klukkan 16:00 í gær.
Fréttablaðið/Nína Richter