Íslenska flugfélagið Air Atlanta flutti í lok nóvember 30 hvíta nashyrninga frá Suður-Afríku til Rúanda. Er þetta stærsti flutningur nashyrninga frá upphafi.

„Það var verið að flytja nashyrningana frá verndarsvæði í Suður-Afríku til nýrra heimkynna,“ segir Magnús Ásgeirsson, yfirmaður sölumála hjá flugfélaginu, sem rekur 15 þotur. Sú sem flutti nashyrningana var Boeing af gerðinni 747. Hún getur borið 100 tonn sem er eins gott, því nashyrningarnir vógu samtals 60 tonn.

Aðspurður hvað sé mikilvægast þegar kemur að svona flutningum, segir Magnús það vera að passa upp á að búr dýranna séu vel skorðuð af og fest, til þess að þau fari ekki á ferð þegar vélin hreyfist. Í raun gildi sömu lögmál um þessa flutninga og aðra gripaflutninga sem flugfélagið hefur sinnt, svo sem flutninga á hestum.

„Þetta verður að vera þröngt til að þeir geti ekki farið að ólátast í fluginu,“ segir Magnús.

Nashyrningarnir voru teymdir, með bundið fyrir augu, inn í viðarpallettubúr sem flutt voru með vörubílum til og frá þotunni. Sérfræðingar voru um borð í vélinni til þess að fylgjast með nashyrningunum og tryggja að þeir hefðu nægt fæði og vatn alla ferðina.

Nashyrningarnir voru sóttir frá Liege í Belgíu og til borgarinnar ­Durban á austurströnd Suður-Afríku þann 27. nóvember og flogið með þá til Kigali, höfuðborgar Rúanda. Tók flugið fjóra tíma og gekk vel.

Nashyrningarnir munu fá nýtt heimili í Akagera-þjóðgarðinum við landamæri Tansaníu. Nashyrningum var útrýmt af svæðinu á tímum belgísku nýlendustjórnarinnar og vegna mikillar ofveiði á áratugunum eftir sjálfstæðið.

Á undanförnum árum hafa svartir nashyrningar verið fluttir aftur á svæðið og nú er komið að þeim hvítu.

Vel hefur verið, og verður, fylgst með nashyrningunum í Akagera, bæði með örmerkjum og reglulegum heimsóknum dýralækna.

Takmarkið er að flytja nógu marga til þess að þeir geti myndað nýja og sjálfbæra hjörð í nýjum heimkynnum. Hvítir nashyrningar eru af tveimur stofnum, norðurstofni sem var kominn niður í aðeins tvö dýr og suðurstofni sem telur um 20 þúsund. Hefur verið reynt að blanda þeim saman til þess að erfðaefni norðurstofnsins tapist ekki að eilífu.

„Við tökum að okkur hin ólíklegustu verkefni. Til dæmis fljúgum við með rokkhljómsveitir, peningasendingar, kappakstursbíla og páfann í Róm og hans fylgdarlið,“ segir Magnús, aðspurður hversu fjölbreytt verkefnin séu, en félagið flýgur út um allan heim. Nashyrningaflutningurinn sé þó með þeim sérstökustu.