Fjöl­margir í­búar á höfuð­borgar­svæðinu urðu varir við það þegar flug­vél tók hring yfir borgina um há­degi en um­rædd flug­vél var á vegum Air At­lanta og lenti í Kefla­vík rétt fyrir klukkan 13 í dag. Vélin flaug lágt á lofti og var á sveimi yfir borginni um há­degis­bilið.

Í Face­book-hópunum Flug­nördar og Fróð­leiks­molar um flug vakti flugið mikla at­hygli en margir sögðust telja að flug­vélin kæmi til með að lenda í Reykja­vík þar sem hún var svo lágt á lofti. „Þessi flaug hér yfir Ráðhusinu áðan - lág­flug yfir tjörn eins og hún ætlaði að lenda hér í RVK,“ skrifaði einn við færslu um málið.

Halldór Sigurðsson var einn þeirra sem tók eftir vélinni og náði myndbandi þegar vélin fór yfir sem hann birti á Facebook. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

Fljúga yfir höfuðstöðvarnar þegar vélar koma til landsins

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Isavia var um að ræða nýja júmbó vél fé­lagsins sem var í lág­flugi en hún var yfir við­miðum um lág­marks­hæð á flugi. Að sögn Sigurðar Magnúsar Sigurðs­sonar, fram­kvæmda­stjóra rekstrar­sviðs Air At­lanta, hafa vélar fé­lagsins nokkrum sinnum flogið lágt yfir höfuð­borgar­svæðið.

„Það er ekki svo al­gengt að vélar frá okkur komi til landsins en þá höfum við bara sótt um til­skilin leyfi frá flug­um­ferðar­stjórn um hvort við megum fljúga yfir,“ segir Sigurður í sam­tali við Frétta­blaðið en vélin fékk leyfi til að fljúga yfir höfuð­stöðvar fé­lagsins.

Sigurður bætir við að vissu­lega hafi verið um að ræða nýjustu vélina í flotanum en annars hafi ekki verið neitt sér­stakt til­efni. „Við vildum bara leyfa starfs­mönnum fé­lagsins hér á Ís­landi tæki­færi til að sjá vélarnar annað slagið ... Það er leiðin­legt að sjá bara flug­vélarnar í ein­hverjum tölvu­kerfum, þær eru raun­veru­lega til.“

Vélin kom til landsins frá Chicago um hádegisbilið.
Skjáskot/Flightradar24