„Þegar við sendum lögfræðilegt bréf til SAS milli jóla og nýárs viðurkenndu þeir strax að þeir hefðu gert rangt með því að meina okkur aðgang að fluginu og samþykktu að við mættum ferðast með barnið okkar aftur heim, án fylgdarmanns,“ segir Eyþór Kamban Þrastarson.
Eyþór og eiginkona hans, Emily Pylarinou, eru búsett í Grikklandi en ætluðu að fljúga til Íslands í desember síðastliðnum ásamt ungri dóttur. Eyþór og Emily eru bæði blind og segir Eyþór að á þeim forsendum hafi þeim í tvígang verið meinaður aðgangur að flugi.
Í fyrra skiptið hafi þeim verið tjáð að flugstjórinn hafi ekki verið tilbúinn að fljúga með þau og í seinna skiptið að það væri öryggisbrestur þegar blindir foreldrar ferðist einir með lítið barn. Þau þyrftu að hafa aðstoðarmann með sér í fluginu
Eftir fjölda tölvupósta milli hjónanna og SAS leystist úr deilunni þegar íslensk kona, sem var á leið til Íslands frá Grikklandi, hafði fregnir af málinu. Hún bauð sig fram til að aðstoða og komust Eyþór og fjölskylda til Íslands viku síðar.
„Alltaf þegar maður ferðast lendir maður í einhverju smá veseni. En ég hef aldrei orðið vitni að annarri eins mismunun,“ segir Eyþór.
Eyþór segist hafa íhugað lögsókn og því sett sig í samband við Blindrafélagið, sem hafi fengið lögfræðing í málið. Sá hafi sent bréf til SAS, sem hafi skýlaust tekið á sig sök í málinu og bókað flug fyrir þau aftur til Grikklands á nýju ári.

„Við flugum heim í byrjun mánaðar og það gekk snurðulaust fyrir sig. Þeir tóku á sig sökina og hafa greitt út bætur eftir okkar kröfum. Gagnvart SAS er þetta því búið af okkar hálfu,“ segir Eyþór.
Eyþór segist þó ætla að fara með málið lengra til þess að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.
„Ef við fljúgum aftur með SAS þá hugsa ég að þetta muni ekki gerast aftur. En maður veit aldrei varðandi önnur flugfélög,“ segir Eyþór.
Að sögn Eyþórs þarf að skoða málið í gegnum annað hvort Öryrkjabandalagið eða Blindrafélagið, sem færu með þetta inn í til dæmis European Disability Forum.
„Þar væri hugsanlega hægt að ýta á eftir að reglurnar séu skýrari í Evrópu og alþjóðareglum,“ segir Eyþór. Alveg nógu mikið sé efast um alla hæfileika hans sem fatlaðs foreldris.
„En þetta er í fyrsta skipti sem ég hef lent í einhverju sem er svona virkilega raunveruleg, sýnileg og áþreifanleg mismunun,“ segir Eyþór Kamban.