Bæjarstjórn Fjallabyggðar hyggst selja eða leigja flugvallarbyggingarnar á Siglufirði og sér ekki fyrir sér að þar verði rekstur flugvallar í fyrirsjáanlegri framtíð. Flugbrautin sjálf verður hins vegar ekki seld því hún nýtist sem lendingarstaður.
Væntingar sveitarfélagsins eru að á svæðinu verði heilsárs starfsemi og að mínu mati ekki ólíklegt að komi fram hugmyndir um að nýta byggingarnar undir ferðaþjónustu. Að því sögðu þá höfum við ekki fyrir fram mótaðar skoðanir um hvað á að koma inn á svæðið enda erum við að leita hugmynda með opnum huga,“ segir Elías Pétursson bæjarstjóri en í lok janúar lýkur fresti til þess að skila inn hugmyndum um nýtingu.
Eftir fjögurra ára lokun var reynt að blása lífi í flugvöllinn árið 2018 og meðal annars gerðar endurbætur á flugbrautinni. Það reyndist hins vegar skammvinnt og í dag eru það aðallega áhugaflugmenn sem nýta brautina á eigin ábyrgð. Engin flugstjórn er í flugstöðvarbyggingunni, en auk hennar er vélaskemma á staðnum. Sveitarfélagið vill koma báðum þessum byggingum í einhvers konar nýtingu.
Verkefnishugmyndir sem fram koma, hverjar sem þær verða, þurfa þó að falla að framtíðaráætlunum sveitarfélagsins og vera líklegar til að efla byggð til langrar framtíðar,“ segir Elías. „Hugmyndir þurfa með öðrum orðum að virka fyrir samfélagið hér í Fjallabyggð.“
Elías gerir ekki ráð fyrir að iðnaðarstarfsemi myndi passa þarna. Nægar lóðir fyrir þess háttar starfsemi séu í nánd við hafnirnar á Siglufirði og Ólafsfirði. En hvort það verði ferðaþjónusta, menningartengd starfsemi eða annað verði að koma í ljós.