Far­þega­flug­vél sem var að koma inn til lendingar á flug­velli í Istanbúl nú í kvöld rann út af flug­brautinni og hlutaðist í sundur. BBC segir frá því að einn sé látinn og meira en 150 slasaðir.

Vélin, sem er á vegum tyrk­neska lág­gjalda­fug­fé­lagsins Pegasus Air­lines, var að koma frá borginni Izmir í Tyrk­landi og voru 171 far­þegi um borð. Mikill vindur og úr­koma var á svæðinu þegar slysið var og er slysið rakið til þess.

Að sögn tyrk­neskra fjöl­miðla var stærstur hluti far­þeganna tyrk­neskir ríkis­borgarar, en einnig voru tuttugu frá öðrum löndum um borð. Mynd­bönd sem birst hafa á sam­fé­lags­miðlum eru sögð sýna far­þega klifra út úr vélinni og eld inni í henni.

Þetta er í þriðja sinn á einungis tveimur árum sem að flug­vélar á vegum Pegasus Air­lines renna út af flug­braut við lendingu. Síðast gerðist það fyrir tæpum mánuði, á sama flug­velli, og árið 2018 rann flug­vél fé­lagsins út af flug­braut á flug­vellinum í tyrk­nesku borginni Tra­bzon. Enginn slasaðist í þeim at­vikum.