Sig­ur­borg Ósk Har­alds­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Pírata og formaður Skipu­lags­ráðs segir ekki standa til að rífa niður eða raska starfsemi flugskýlis í eigu flugfélagsins Ernis í Skerjafirði.

Forstjóri Flugfélagsins Ernis sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 á fimmtudaginn að Reykjavíkurborg hafi tilkynnt Flugfélaginu í apríl að rífa ætti viðhaldsstöð félagsins á Reykjavíkurflugvelli vegna nýs skipulags.

„Ég skil að hann hafi upplifað þetta þannig þar sem að við bárum aðeins þessa einu tillögu undur aðilana á þessum tíma. Okkar mistök eru þau að vera ekki búin að upplýsa um að það væri búið að teikna upp aðrar leiðir. Þeirra starfsemi verður ekki raskað, flugskýlið mun standa og við finnum aðrar lausnir," segir Sigurborg.

Sig­ur­borg Ósk Har­alds­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Pírata og formaður Skipu­lags­ráðs.
Anton Brink

Framkvæmdirnar verða í tveimur áföngum

Tengja þarf uppbyggingu í Skerjafirði við Fossvoginn og þær almenningssamgöngur sem þar muni fara yfir. Framkvæmdirnar eru annars vegar hluti af skipulagi húsnæðisuppbyggingu í Skerjafirði og hins vegar deiliskipulag fyrir brúna yfir Fossvoginn.

„Þegar að framkvæmdir fara af stað í Skerjafirðinum þá þurfum við hafa veg fyrir efnisflutninga svo þegar að húsnæðið er tilbúið þurfum við að vera komin með varanlegan veg fyrir almenningssamgöngur til að tengja við Fossvogsbrúna og við Borgarlínu. Við viljum alltaf byrja á þessum tímabunda framkvæmdaveg og það á ekki að þurfa að raska skýlinu að neinu leiti."

Í apríl síðastliðinn var gerð fyrsta tillaga að vegi. „Fyrstu drög gerðu ráð fyrir vegi sem lægi hjá viðhaldsskýli Ernis. Það var fundað með Erni og þá kom í ljós að það myndi ekki ganga, en þeir komu á fund hjá borginni og mótmæltu því."

„Þá var farið í að skoða aðrar vegtengingar, þannig að vegurinn gæti legið annars staðar eða meðfram skýlinu svo hann myndi ekki trufla starfsemi Ernis. Enda er það hluti af því samkomulagi milli ríkis og borgar. Við stöndum við það í einu og öllu og munum að sjálfsögðu ekki raska þeirra starfsemi."

Sigurbjörg segir að nú sé í skoðun hvaða leið verði valin af þeim þremur sem búið er að teikna upp.