Vaxandi átök hafa verið milli Palestínu og Ísrael síðast­liðna daga en ó­eirðir brutust út í Jerúsalem í dag þar sem til stóð að halda Jerúsalem­daginn há­tíð­legan en dagurinn er til minningar um það þegar ísraelskir her­menn náðu völdum í Jerúsalem árið 1967.

Hundruð Palestínu­manna særðust í á­tökum við lög­reglu við Al-Aqsa moskuna í dag en þúsundir höfðu lokað sig inni í moskunni, sem er talinn einn heilagasti staðurinn í íslam, fyrir Jerúsalem­daginn. Lög­regla beitti meðal annars tára­gasi og gúmmí­kúlum gegn Palestínu­mönnum til að koma þeim út.

Fyrr í dag var flug­skeytum skotið frá Gaza í áttina að Jerúsalem en Hamas sam­tökin höfðu varað við því að þau myndu grípa til að­gerða ef lög­regla myndi ekki yfir­gefa moskuna fyrir klukkan 18 að staðar­tíma. Enginn virðist hafa særst vegna flugskeytanna en ísraelska þingið var þó rýmt.

Hundruð særst í átökunum

Síðast­liðna daga hefur staðan í Jerúsalem verið veru­lega eld­fim vegna á­ætlaðs mál­flutnings Hæsta­réttar Ísraels um brott­flutning Palestínu­manna í Austur-Jerúsalem til að búa til pláss fyrir ísraelskar land­nema­byggðir.

Hæsti­réttur Ísraels á­kvað um helgina að fresta mál­flutningi í ljósi of­beldis­fullra á­taka milli Palestínu­manna og lög­reglu í Ísrael. Hundruð Palestínu­manna og tugir ísraelskra lög­reglu­manna hafa þegar særst í á­tökunum.

Öryggis­ráð sam­einuðu þjóðanna fundaði um stöðu mála í dag en mannréttindasamtök víða um heim hafa kallað eftir því að alþjóðasamfélagið skerist í leikinn.