Loft­skeytum var skotið á banda­ríska her­stöð í Írak í gær­kvöldi. Breska blaðið Metro greinir frá því að á her­stöðinni séu einnig tvö hundruð breskir her­menn. Ekki er talið að neinn hafi fallið í á­rásinni og enginn hefur lýst yfir ábyrgð á henni.

Í frétt Metro segir að loft­skeytin hafi verið skamm­drægari en þau sem skotið var á her­stöðvar í Írak í kjöl­far á­rásar Banda­ríkja­manna á íranska hers­höfðingjann Qassim Suleimani undir lok síðasta árs. Árásinni er lýst sem minniháttar.

Önnur á­rásin í vikunni

Enginn hefur lýst yfir á­byrgð á á­rásinni sem kemur í kjöl­far á­rásar sem gerð var á banda­ríska her­stöð ná­lægt Bag­hdad á sunnu­daginn. Fjórir íraskir her­menn slösuðust í þeirri árás.

Metro vitnar í banda­ríska her­foringjann My­les Caggins sem sagði á Twitter að enginn með­limur her­liðs banda­lags­manna hefði slasast í á­rásinni.

Utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, Mike Pompeo, for­dæmdi á­rásina á sunnu­daginn og bað írösk stjórn­völd að láta þá sem stóðu fyrir á­rásinni sæta á­byrgð.

„Þessi í­trekuðu brot á full­veldi Íraks, framin af hópum sem ekki eru hlið­hollir ríkis­stjórninni, verða að enda," sagði Pompeo á Twitter.

Írösk stjórn­völd hafa aftur á móti sagt að á­rásir Banda­ríkjanna í Írak, meðal annars á bíla­lest Suleimani, séu á­rásir á full­veldi ríkisins. Meðal annars fór íraska þingið fram á að Banda­ríkja­menn drægju her­lið sitt frá landinu og for­sætis­ráð­herra Íraks hefur beðið banda­rísk stjórn­völd að útbúa á­ætlun um hvernig þau dragi her­menn sína til baka.

Banda­ríkin og Írak beðin um að sýna stillingu

Á­rásirnar eru framdar í skugga vaxandi spennu á milli Banda­ríkjanna og Íran, eftir að banda­ríkja­menn felldu íranska hers­höfðingjann Qassim Suleimani. Íranir hafa heitið hefndum og skutu meðal annars flug­skeytum á her­stöðvar í Írak.

Al­þjóðasma­fé­lagið hefur biðlað til landanna að sýna stillingu og beðið um að fundin verði frið­sam­leg lausn á þeirri stöðu sem upp er komin. Magnist deilurnar enn frekar geti þær ógnað stöðugleika á svæðinu.