Ef skoðuð er komu og brottfararáætlun ISAVIA í dag má sjá greinilega að þær flugtafir sem nú eiga sér stað víðsvegar um heim láta Ísland ekki óafskipt. Lang flest komuflug til Íslands eru annaðhvort sein eða hefur verið aflýst. Brottfarir eru þó margar hverjar á áætlun.

Mikið hefur borið á fréttaflutningi um erfiðleika í flugumferð undanfarið en flest vandamál flugfyrirtækja má rekja með einum eða öðrum þætti til Covid faraldursins sem olli hruni í farþegaflugi. Flugumferð á heimsvísu virðist nú þjást af gríðarlegum vaxtaverkjum þar sem flugfélög annaðhvort finna ekki starfsfólk til að fylla í stöður eða geta ekki þjálfað fólk nægilega hratt til þess að mæta eftirspurn eftir flugum.

Ástandið á flugvellinum í Amsterdam er til dæmis orðið svo slæmt að Hollensk yfirvöld hafa gefið út áður óþekkta skipun að flugfélög megi ekki selja fleiri miða fram í lok júlí.

Icelandair, Air Greenland, SAS eru meðal flugfélaga sem hafa aflýst flugi í dag.
Af vef Isavia

Annað sem einnig hefur áhrif á áætlunarflug dagsins er að SAS hefur þurft að aflýsa fjölmörgum flugum vegna verkfalls flugmanna. En það verkfall er til komið þar sem kjaraviðræður flugmanna við SAS hafa siglt í strand.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við fréttablaðið að vissulega hefði þetta áhrif á íslenska flugumferð þar sem flugfélögin SAS og Icelandair eru í samstarfi.

„Þetta hefur áhrif á Icelandair að því leiti að við erum í samstarfi við SAS um svokölluð sammerkt flug þar sem fólk getur bókað með okkur og tengt áfram með SAS á áfangastaði sem við fljúgum ekki til og öfugt,“ segir Ásdís Ýr og bætir við „þannig hefur þetta vissulega áhrif á þá farþega sem hafa bókað slík flug og við vinnum nú að því að koma þeim á áfangastaði með öðrum leiðum. Að sama skapi er SAS að leita til okkar að koma sínum farþegum á áfangastað með flugi með okkur.“

Gert er ráð fyrir að ástandið á heimsvísu gæti varað út sumarið og inn í haustið.