Borið hefur á að eigendur dróna hundsi reglur um hámarkshæð drónaflugs við eldgosið í Meradölum á Reykjanesskaga sem hófst í gær.

Sigfús Þór Sigmundsson, staðgengill samskiptastjóra hjá Samgöngustofu, segir tilkynningar hafa borist til Samgöngustofu vegna málsins og mikilvægt sé að dróna eigendur fylgi reglum til að gæta flugöryggis á svæðinu.

Samkvæmt reglum megi ekki fljúga drónum hærra en 120 metrum yfir jörðu til að öryggi sé tryggt og þeir þurfi að víkja fyrir mönnuðum loftförum.

Gæta fyllsta öryggis

„Þyrlur og flugvélar í lágflugi mega ekki fara neðar en 150 metrar. Þannig að það þarf að vera þarna bil á milli sem tryggir flugöryggi. Við viljum náttúrulega alls ekki að árekstur dróna og hefðbundinna loftfara eigi sér stað,“ segir Sigfús og bætir við að mikilvægt sé að dróna eigendur kynni sér lög og reglur um notkun þeirra.

Dróna eigendur þurfi einnig að hafa í huga ef flugvélar eða þyrlur hafi leyfi til að lenda á svæðinu þurfi drónar alltaf að víkja til að fyllsta öryggis sé gætt.

Að sögn Sigfúsar er Samgöngustofa í góðu sambandi við flugsamfélagið en erfiðara sé að ná til dróna flugmanna þar sem hver sem er geti haft aðgang að slíku tæki.

Vilja ekki setja takmarkanir

Í tilkynningu frá Samgöngustofu kemur fram að drónar megi ekki fljúga hærra en 120 metra yfir jörðu. Þeir skuli víkja fyrir mönnuðum loftförum og að ekki megi fljúga þeim utan sjónsviðs stjórnanda hans.

Þá beri eigandi dróna ábyrgð á því tjóni sem kunni að hljótast af notkun hans og til dróna í atvinnuskyni séu gerðar frekari kröfur líkt og skráning þeirra.

„Verði vart við brot sem geta stefnt öryggi í hættu gæti þurft að grípa til þess að setja verulegar takmarkanir eða bann við drónaflugi við eldstöðina,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Samgöngustofa vonist til þess að ekki þurfi að koma til þess að takmarka eða banna drónaflug við eldgosið. „Við erum að biðla til skynseminnar hjá fólki. Eins og við höfum séð þá eru þetta stórkostlegar myndir sem við erum að fá úr þessum drónum þannig að það er alls ekki okkar vilji að setja takmarkanir,“ segir Sigfús að lokum.