Flugöryggisstofnun Evrópu(EASA) hefur bannað tímabundið alla flugumferð Boeing 737 MAX 8 og 737 9 í evrópskri lofthelgi.  Ástæðan er mannskætt flugslys sem átti sér stað í Eþíópíu um helgina þegar vél af tegundinni 737 MAX 8 fórst. 157 létust í slysinu, en um er að ræða annað flugslys 737 MAX 8 vélar á innan við hálfu ári. Í októberlok fórst vél flugfélagsins Lion Air yfir Indónesíu með þeim afleiðingum að 189 létust. Reuters greinir frá.

„EASA hefur ákveðið að stöðva alla flugumferð þessara tveggja flugvélagerða,“ kemur fram í yfirlýsingu frá stofnunninni. Bretar, Frakkar og Þjóðverjar hafa nú þegar bannað vélar af sömu gerð tímabundið og hefur verið þrýst á Bandaríkin að gera slíkt hið sama. 

Greint var frá því fyrr í dag að Icelandair hefði ákveðið að taka Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri um óákveðin tíma. Félagið er með þrjár slíkar vélar í rekstri og fylgdi í fótspor fjölda annarra flugfélaga og flugmálayfirvalda um heim allan sem kyrrsett hafa vélar af sömu tegund.

Flug­mála­yf­ir­völd í Nor­egi hafa ákveðið að fara sömu leið og banna tímabundið flugvélar 737 MAX-8 í norskri loft­helgi.