„Það er ánægjulegt að konum í flugnámi fari fjölgandi. Enda er flugmannsstarfið jafnt fyrir konur og karla. Það þarf ekkert að hnykla vöðvana til að stýra flugvél, ekki frekar en bíl,“ segir Sigríður Einarsdóttir en hún var árið 1984 fyrsta konan sem var ráðin sem flugmaður hjá Icelandair.

Nýverið birtist frétt um að nemendum við Flugakademíu Íslands færi fjölgandi og fagnar skólinn því að fjórðungur nemenda skólans sé konur. Hefur þeim farið ört fjölgandi á undanförnum árum. Til marks um það stunduðu 37 konur atvinnuflugmannsnám við Keili árið 2018 en nú eru þær 65 talsins.

Meðalaldur nemenda er nú 26 ár. Yngstir eru nemendur í einkaflugmannsnámi en þar er meðalaldurinn 23 ár. Aldurstakmark í það nám er lægra en í atvinnuflugmannsnámið eða 16 ára í stað 18. Flestir nemenda búa á höfuðborgarsvæðinu eða 68 prósent en 18 prósent búa á Reykjanesinu.

Sigríður var eina konan við stýrið hjá Icelandair í hartnær fimm ár. Eftir tíu ár í starfi voru þær orðnar þrjár og þegar hún hafði flogið í 20 ár byrjaði tíunda konan að fljúga fyrir Icelandair. Hún bendir á að árið 2018 hafi konur verið um 12 prósent af flugmönnum Icelandair eða um 75 talsins.

„Þetta er gott starf, ég get mælt með því. Þetta er auðvitað vaktavinna og töluverð fjarvera frá heimili en það hentar líka mörgum að hafa óreglulegan vinnutíma. Það er dásamlegt að fljúga um loftin blá. Ég hef oft sagt að Ísland sé eins og opin jarðfræðibók úr lofti. Maður verður aldrei þreyttur á að fljúga yfir Ísland eða Grænland, útsýnið er oft á tíðum stórkostlegt. Á veturna þegar flogið er til Boston er algengt að flogið sé allan tímann í sólarlaginu í fimm klukkutíma sem er dásamlegt,“ segir Sigríður.