Flugmenn í Evrópska Flutningamannasambandinu, ETF hafa sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að þeir standi með flugliðum Icelandair.

Í yfirlýsingunni segir að þær fregnir um áform Icelandair að segja upp öllum flugfreyjum félagsins og skipta þeim út fyrir flugmenn sé mikið áhyggjuefni.

„Fyrir hönd ETF flugmanna frá allri Evrópu fordæmum við hér með harðlega hegðun fyrirtækisins sem og aðgerðum flugmanna Icelandair. Þessi hegðun er til skammar og gerir lítið úr áhafnarmeðlimum Icelandair, bæði flugfreyjum og flugmönnum. Sem betur fer náðust samningar á milli félagsins og FFÍ til að koma í veg fyrir þessar aðstæður."

Þeir segja að ákvörðun flugmanna Icelandair að hafa samþykkt útspil félagsins og þannig grafið undan kjarabaráttu samstarfsmanna sinna sé til skammar og setji faglega ímynd flugmanna í hættu.

Þá sé samstaða og siðferði grundvallaratriði til að launafólk geti staðið vörð um réttindi sín.

„Við teljum að enginn hópur launafólks ætti nokkurn tímann að taka sjálfviljugur þátt í aðgerðum sem gætu grafið undan starfsskilyrðum annarra hópa launafólks. Slíkar aðgerðir eru skaðlegar þegar til langs tíma er litið. Flugmenn ETF lýsa yfir innilegri samstöðu með flugfreyjum Icelandair."

Þá er tekið fram að ETF virði fagmennsku flugliða og undirstriki það mikilvæga hlutverk sem þeir gegni, að tryggja almennt öryggi farþega um borð.

Fréttablaðið/Skjáskot

Icelandair sleit kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) þann 17. júlí síðastliðinn og sagði í kjölfarið öllum flugliðum félagsins upp. Þess í stað áttu flugmenn að taka að sér störf öryggisliða um borð tímabundið. Tveimur dögum síðar funduðu samningsaðilar FFÍ og Icelandair og skrifuðu undir nýjan samning. Félagsmenn samþykktu þann samning í atkvæðagreiðslu sem lauk á mánudaginn og var hluti flugliðanna endurráðinn í byrjun vikunnar.