Flugmálayfirvöld hafa nú hafið rannsókn á því hvernig það bar að garði að farþegaþota Ethiopian Airlines fórst fyrr í dag með þeim afleiðingum að 157 manns létust. Í umfjöllun Guardian kemur fram að það sé ráðgáta hvernig „reynslumiklum“ flugmanni sem jafnframt er lýst sem framúrskarandi hafi ekki tekist að koma í veg fyrir slys og það á glænýrri farþegaflugvél af gerðinni Boeing 737 Max.

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá fórst farþegaflugvél af sömu gerð í Jakarta í Índónesíu í október síðastliðnum en þá, líkt og nú, fórst vélin einungis nokkrum mínútum eftir að hún hafði hafið flugtak. Skömmu áður en vélin hrapaði lét flugmaðurinn vita að upp hefði komið bilun og bað um að fá að lenda aftur á flugvellinum. 

Forstjóri Ethiopian Airlines, Tewolde GebreMariam, hefur þó sagt að venjubundin skoðun hafi ekki leitt nein vandamál í ljós í vélinni sem félagið fékk í hendurnar í nóvember síðastliðnum. Þá hafi flugmaðurinn, Yared Getachew flogið rúmlega 8000 klukkustundir og haft „framúrskarandi feril.“

Sjá einnig: „Ótímabært“ að kyrrsetja vélar Icelandair

Þannig tekur Tewolde í sama streng og Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Icelandair, sem gerir út þrjár slíkar þotur og segir að of snemmt sé að tengja slysið við vélina. „Eins og ég segi, þetta er glæný vél með engar bilanir og flogið af reyndum flugmanni og það er ekkert sem við vitum fyrir víst á þessari stundu,“ segir Tewolde. 

Flugmálayfirvöld í Eþíópíu munu vinna náið með forsvarsmönnum Boeing og alþjóðlegum flugmálayfirvöldum að rannsókninni. Farþegar í vélinni voru frá meira en þrjátíu löndum, þar á meðal Kenía, Kanada, Ítalíu, Kína, Bretlandi og Bandaríkjunum. 

Örlög flugvélarinnar í Indónesíu eru enn til rannsóknar og verður lokaskýrsla vegna hennar gefin út síðar á þessu ári.