Þrjú ungmenni eru í flugvélinni sem leitað hefur verið að síðan síðdegis í dag, auk flugmannsins sem er Íslendingur á fimmtugsaldri. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Fjórmenningarnir flugu frá Reykjavíkurflugvelli á ellefta tímanum í morgun en skiluðu sér ekki til baka samkvæmt áætlun. Síðast heyrðist til þeirra um klukkan hálf tólf í morgun.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir mikinn þunga í leitinni að flugvélinni og að áfram verði leitað fram á nótt.

Búið er að senda beiðnir á björgunarsveitir um allt land til að óska eftir frekari liðsauka. Gert er ráð fyrir að nýr og ferskur hópur taki við leitinni snemma í fyrramálið ef leitin hefur ekki borið árangur.

Aðstandendur hafa verið upplýstir

Að sögn Davíðs Márs eru björgunarsveitir nú meðal annars að leita á Þingvallavatni á bátum, þá er einnig notast við dróna, vélsleða og jeppa ásamt fleiri tækjum og tólum.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir leitina eina umfangsmestu síðari ára.

„Það er búið að láta aðstandendur vita af stöðunni,“ segir Ásgeir aðspurður.

Hann segir farþega vélarinnar hafa verið hluta af ferðahópi. Flugið hafi verið skipulagt sem útsýnisflug og til ljósmyndunar.

„Við höfum þær upplýsingar að þeir sem voru um borð hafi ætlað að taka myndir af íslenskri náttúru.“

Fólk á þrítugsaldri

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru farþegarnir þrír hluti af hópi sem kom til landsins á mánudag í frí. Farþegar vélarinnar eru af ýmsum þjóðernum og á þrítugsaldri og flugmaðurinn tæplega fimmtugur.

Að sögn Ásgeirs er flugvélin hvít fjögurra sæta Cessna.

Alls tóku 510 björgunarsveitarmenn þátt í leitinni í dag. Þeim hefur svo fjölgað eftir því sem liðið á kvöldið og aukinn þungi verið settur í leitina.

Ein þyrla gæslunnar hefur verið við leit í kvöld og mun taka þátt í leitinni eins lengi og hvíldartímareglur áhafnarinnar leyfa.

Líklegasti staðurinn sunnan Þingvallavatns

Ásgeir segir leitarsvæðið stórt, við Kleifarvatn á Suðurnesjum að svæðinu sunnan Þingvallavatns þar sem mestur þungi hefur verið.

„Vegna þeirra vísbendinga sem hafa borist þá er það líklegasti staðurinn,“ segir Ásgeir.

Að sögn Ásgeirs er vitað að ferðafélagar fólksins fengu skilaboð frá þeim klukkan hálf tólf fyrir hádegi.

„Það er með þeim upplýsingum sem við erum að vinna eftir. Síðan er verið að horfa til flugferils flugvélarinnar og símagagna,“ segir Ásgeir.

Fréttin var uppfærð 00:29 og leiðrétt. Upprunalega var greint frá því að farþegar vélarinnar væru af báðum kynjum, það er rangt. Hið rétta er að hópurinn sem farþegar vélarinnar ferðaðist með er af ýmsum þjóðernum, bæði karlar og konur.