Appelsínugular og gular viðvaranir verða víða um land í fyrramálið. Vegna veðurs hefur flugi Icelandair verið aflýst og óvissustigi lýst yfir á Reykjanesbrautinni.

Icelandair hefur ákveðið að aflýsa öllum brottförum frá Norður-Ameríku í kvöld vegna veðurs. Þá hefur öllu morgunflugi til Evrópu í fyrramálið verið aflýst og þar af leiðandi komum frá Evrópu seinnipartinn, nema flugi til Tenerife og Las Palmas sem verður seinkað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.

Þá hefur morgunflugi í fyrramálið til Akureyrar og Egilsstaða verið aflýst vegna veðurs. Allir farþegar verða endurbókaðir sjálfkrafa og ný ferðaáætlun send til þeirra.

Í tilkynningunni segir að gert sé ráð fyrir að síðdegisflug til Norður-Ameríku sem og til London verði á áætlun á morgun, til viðbótar við auka flug sem sett hefur verið upp til Kaupmannahafnar síðdegis.

Lögreglan á Suðurnesjum lýsir yfir óvissustigi á Reykjanesbrautinni milli klukkan tvö og tíu í nótt og fyrramálið, en það þýðir að með litlum fyrirvara gæti komið til lokanna á brautinni.

„Færð gæti þó farið að spillast strax í kvöld og þurfa vegfarendur að hafa gætur á þegar farið er um Reykjanesbraut sem og aðra vegi í umdæminu. Góð vetrardekk geta gert gæfumuninn í þessum aðstæðum þar sem mikil ísing getur myndast á vegum,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

í kvöld lýsti Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórana á öllu landinu yfir óvissustigi Almannavarna vegna veðursins.

Fyrsta appelsínugula viðvörun Veðurstofunnar tekur gildi kl. 6:00 í fyrramálið. „Góðu fréttirnar eru að veðrið fer hratt yfir og síðasta appelsínugula viðvörunin rennur úr gildi um hádegisbilið.“ segir á vef Almannavarna.

„Almannavarnir biðla til almennings um að ganga frá lausamunum til að fyrirbyggja foktjón. Einnig er mikilvægt að byggingarfyrirtæki hugi að sínum svæðum og geri viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir og draga úr tjóni.  Miklar líkur eru á að veðrið muni hafa áhrif á samgöngur og eru vegfarendur beðnir um að vera ekki á ferðinni að óþörfu á þeim svæðum þar sem veðrið er verst hverju sinni. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“