Flugfreyjur bandarísku flugfélaganna American Airlines og Southwest Airlines, ásamt flugvirkjum félaganna hafa hvatt vinnuveitendur sína til þess að kyrrsetja 737 MAX vélar flugfélaganna. Fjöldi flugfélaga og flugmálayfirvalda um heim allan hafa kyrrsett, eða tekið vélarnar úr rekstri um óákveðin tíma. Þar á meðal er Icelandair sem hefur tekið þrjár vélar af tegundinni 737 MAX 8 úr rekstri.

Ástæðan er mannskætt flugslys sem átti sér stað í Eþíópíu um helgina þegar vél af sömu tegund fórst. 157 létust í slysinu. Um er að ræða annað flugslys 737 MAX 8 vélar á innan við hálfu ári. Í októberlok fórst vél flugfélagsins Lion Air yfir Indónesíu með þeim afleiðingum að 189 létust.

Bandarísk lofteferðayfirvöld(FAA) hafa hins vegar ekki krafist kyrrsetningar á vélunum og eru þær sagðar fullkomnlega flughæfar. FAA hefur þó krafist þess að flugvélaframleiðandinn Boeing geri breytingar á 737 MAX 8 þotum sínum fyrir apríl lok.

Bæði Southwest og American Airlines eiga slíkar þotur og hafa áhyggjufullir farþegar haft samband við flugfélögin til þess að breyta flugmiðum sínum til þess að komast hjá því að ferðast með 737 MAX 8 þotunum.

Flugfreyjur flugfélaganna hafa einnig lýst yfir áhyggjum sínum vegna þessa. Bandaríska fréttastofan CNBS hefur eftir Lori Bassani, forseta Flugfreyjufélagsins vestanhafs, að flugfreyjur hafi miklar áhyggjur í kjölfar flugslyssins.

„Mörg virt alþjóðleg flugfélög hafa kyrrsett vélarnar. Við biðlum til forstjórans Doug Parker að alvarlega íhuga að kyrrsetja vélarnar þar til frekari rannsókn er lokið,“ sagði Bassani. Parker er forstjóri American Airliner, en einnig hefur verið biðlað til forstjóra Southwest að kyrrsetja vélar flugfélagsins.