Akur­eyrska flug­fé­lagið Niceair og Flug­freyju­fé­lag Ís­lands (FFÍ) undir­rituðu kjara­samning fyrir flug­freyjur og -þjóna fé­lagsins. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu sem FFÍ sendi fjöl­miðlum.

„Það er með gleði og bjart­sýni sem við hjá FFÍ óskum Niceair til hamingju með að hafa tekið á loft. . FFÍ fagnar því að Niceair hafi gengið til við­ræðna og lokið kjara­samningi við fé­lagið með árangurs­ríkum hætti og bjóðum við nýja fé­lags­menn hjartan­lega vel­komna,“ segir í til­kynningunni frá FFÍ.

Í til­kynningu sem ASÍ sendi frá sér segir að það sé á­nægju­legt að nýja flug­fé­lagið leggi metnað í að ganga frá kjara­samningum og verja þannig réttindi og kjör síns starfs­fólks. „Með því móti er lík­legra að hæft og gott starfs­fólk fáist til starfa til lengri tíma og haldnar eru í heiðri vinnu­reglur á ís­lenskum vinnu­markaði,“ segir í til­kynningunni frá ASÍ.

„Ég vil óska nýju flug­fé­lagi til hamingju með heilla­drjúg fyrstu skref og óska þeim vel­farnaðar í fram­tíðinni. Það er ljóst að það á ekki að tjalda til einnar nætur og það er góð til­finning að geta mælt með nýju flug­fé­lagi við við­skipta­vini, fjár­festa og starfs­fólk,“ sagði Drífa Snæ­dal for­seti ASÍ.

Guð­laug Lín­ey Jóhanns­dóttir for­maður FFÍ segir fé­lagið hafa fagnað því að Niceair hafi engið til við­ræðna og lokið kjara­samningi við fé­lagið með árangurs­ríkum hætti. „Við­ræðu­ferlið hefur í alla staði verið far­sælt og gott og hlökkum við til á­fram­haldandi sam­starfs,“ sagði hún.

Kjara­samningar um störf flug­freyja og flug­þjóna hér á landi eru ekki al­gildir og því þarf að semja fyrir hvert flug­fé­lag fyrir sig.