Flugfreyja, 43 ára að aldri, sem varð veik um borð í flugvél ísraelska flugfélagsins El Al í apríl vegna mislingasmits er látin. Þetta kemur fram í frétt BBC Ekki er vitað hvenær hún smitaðist af mislingum. Hlaut hún heilaskaða af völdum veirunnar og fór í dá.

Þetta er þriðja dauðsfallið af völdum mislinga í Ísrael síðan í nóvember í fyrra og hafði enginn þar til í fyrra látist af völdum sjúkdómsins í fimmtán ár.

Mislingar eru að aukast í Bandaríkjunum miðað við mælingar frá því í fyrra og eru tilkynnt tilfelli mislinga nú þegar orðin fleiri en árið 2018 eða hátt í 400.

Mislingar eru einn mest smitandi sjúkdómur í heiminum og hefur aukningar hans orðið vart víða, bæði í löndum þar sem vantraust hefur myndast á bólusetningar og í löndum sem glíma við verri innviði í heilbrigðiskerfinu.

Tilkynningar um mislinga þrefölduðust á alþjóðavísu á árinu miðað við á sama tíma í fyrra miðað við nýja skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Flestar voru tilkynningarnar frá Austur-Kongó, Úkraínu og Madagaskar. Árið 2018 voru tilfelli mislinga í Úkraínu 53.218 en þar gætir talsvert mikils vantrausts á bólusetningar. Önnur lönd þar sem tíðnin hefur farið ört hækkandi eru Jemen, Venesúela og Brasilía.

Samkvæmt skýrslu landlæknis um þátttöku í almennum bólusetningum barna á Íslandi árið 2018 er skráð þátttaka allra árganga 2-17 ára 95% sem er talið fullnægjandi til að hindra verulega útbreiðslu faraldra sem hingað gætu borist.