Icelandair hefur flýtt níu flug­ferðum í dag vegna veðurs en þetta stað­festir Ás­dís Ýr Péturs­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Icelandair. Gular og appel­sínu­gular við­varanir verða í gildi um allt land upp úr há­degi fram á þriðju­dags­kvöld og lítið sem ekkert ferða­veður verður á öllu landinu.

„Það er ein brott­för á á­ætlun til Kaup­manna­hafnar klukkan 14 en síðan erum við búin að flýta níu brott­förum klukkan 14, 15 og 16, vegna veðurs,“ segir Ás­dís í sam­tali við Frétta­blaðið en hún segir öll flug í morgun hafa gengið vel.

Að sögn Ás­dísar liggur ekki fyrir hve­nær hægt verður að fljúga á ný. „Við erum bara að skoða fram­haldið. Þetta eru allar okkar vélar sem eru að fara í dag þannig við erum bara að vinna í því að koma öllu flugi út í dag.“

Vel gengið að tæma fjöldahjálparstöðina

Alls voru rúm­lega 500 manns sem nýttu sér þjónustu fjölda­hjálpar­stöðvar í í­þrótta­húsinu Sunnu­braut í Kefla­vík í gær­kvöldi og í nótt en öllu flugi Icelandair var af­lýst í gær­kvöldi vegna veðurs. Að sögn Ás­dísar voru 150 manns eftir klukkan hálf 11 í dag og búist er við að hægt verði að tæma stöðina upp úr klukkan 11.

Þetta eru að mestu far­þegar sem eru á leiðinni til Banda­ríkjanna og Kanada núna klukkan tvö og við erum að ferja þetta fólk núna upp á flug­völl,“ segir Ás­dís. „Að öðru leyti er allt með kyrrum kjörum í Kefla­vík.“

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, hvetur farþega til þess að fylgjast vel með brottförum á heimasíðu Keflavíkurflugvallar þar sem tilkynningar um flug berast í rauntíma.