Verð á flugvélabensíni í Evrópu hefur næstum tífaldast undanfarin tvö ár. Í maí árið 2020 kostaði hvert gallon 41 bandarískt sent en kostaði 390 um mánaðamótin samkvæmt skýrslu Eurocontrol, flugöryggisstofnunar Evrópu.

„Við skarpa hækkun olíuverðs í tengslum við stríðið í Úkraínu hækkaði Icelandair olíugjald sitt og sú hækkun hefur farið út í flugmiðann,“ segir í svari Icelandair við fyrirspurn Fréttablaðsins um hvernig flugfélagið hafi tekist á við þessa miklu hækkun. Ekki hefur þurft að fella niður flug vegna kostnaðar.

Helsta vopn Icelandair gegn sveiflum á eldsneytismarkaði hefur verið svokallaðar olíuvarnir, það er að gera langtímasamninga til að auka á fyrirsjáanleikann. Icelandair hætti þessum vörnum þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst, vegna mikillar óvissu um flugáætlunina. Eftir að faraldrinum létti hefur félagið byrjað varfærnislega að auka olíuvarnir. Hefur það tryggt sér fjórðung af áætlaðri olíunotkun annars ársfjórðungs og fimmtung af áætlaðri notkun þriðja ársfjórðungs á tilteknu verði.

Flugfélagið WOW Air hafði engar olíuvarnir og spilaði eldsneytisverð stóran þátt í að illa fór fyrir því. Flugfélagið Play hefur enn ekki komið sér upp olíuvörnum.

„Mjög fáir okkar samkeppnisaðila hafa einhverjar varnir að ráði. Því munu þessa hækkanir veltast út í verðin eins og í öðrum vöruflokkum,“ segir Nadine Guðrún Yaghi, upplýsingafulltrúi Play. Verð á hverjum miða þurfi kannski að hækka um 20 dollara, eða um 2.500 krónur, til að mæta þessu. „Það er erfitt að setja varnir þegar verð sveiflast svona mikið. Þannig að já, verð munu hækka.“

Í svörum frá bæði Icelandair og Play kemur hins vegar fram að farþegum sé að fjölga mikið þessa dagana. Ferðaviljinn sé mikill eftir langvinnan faraldur.

Á árunum fyrir faraldur, 2017 til 2019, var verð á flugvélabensíni yfirleitt á bilinu 120 til 200 sent á gallonið en hrapaði í faraldrinum. Þegar heimurinn kom úr hægagangi faraldursins hækkaði verðið hratt og stríðið í Úkraínu hefur spýtt því upp enn frekar. Sögulega séð, þegar verðbólga er tekin með inn í reikninginn, hefur olíuverð aldrei verið hærra nema í olíukrísunni árið 1979 og á árunum eftir bankahrunið árið 2008.

Óvissan um framboð olíu er það sem hefur hvað mest áhrif á verðið en Rússland er þriðja stærsta olíuframleiðsluríki heims. Upp úr brunnum í Rússlandi kemur einnig súrari og „þyngri“ hráolía sem hentar betur til framleiðslu flugvélabensíns. Verðhækkunin í Norður-Ameríku er hins vegar meiri en í Evrópu þrátt fyrir að Bandaríkjamenn kaupi lítið af olíu af Rússum.

Önnur olíuríki hafa verið óviljug til að auka við framleiðsluna og tæknilega er erfitt að auka hana hratt. Þá hafa fjárfestar verið tregir til að fara inn á olíumarkaðinn undanfarin ár af ótta við að „óhreinka sig“ af umhverfisástæðum og hafa þeir haft litla trú á að fjárfestingarnar borgi sig þótt verðið sé hátt akkúrat nú.