Flu­g­yfir­völd í Afgan­istan hafa hvatt loft­fé­lög til að forðast að fljúga í gegnum af­ganska loft­helgi en að því er kemur fram í frétt Reu­ters segja yfir­völd að loft­helgin sé nú undir stjórn „hersins.“ Ekki er þó til­greint um hvaða her er að ræða en liðs­menn Talí­bana hafa nú tekið yfir stjórn í landinu, meðal annars í höfuð­borginni, Kabúl.

Í til­kynningu á vef flug­mála­yfir­valda kemur fram að engin stjórn sé nú á loft­helgi yfir Kabúl og því ekki hægt að leið­beina flug­vélum sem ætla að lenda í Afgan­istan. Sam­kvæmt frétt Reu­ters hafa nokkrar flug­vélar þurft að snúa við vegna málsins en til­kynningin hefur helst á­hrif á flug milli Evrópu og Asíu.

Banda­ríkja­her hefur tekið yfir flug­um­ferðar­stjórn á al­þjóð­lega flug­vellinum í Kabúl en ör­tröð skapaðist þar í morgun eftir að öllu flugi var af­lýst þar sem þúsundir reyndu að flýja landið. Að minnsta kosti fimm létust á vellinum í morgun, þar af tveir vopnaðir ein­staklingar sem banda­rískir her­menn skutu til bana. Þá létust einnig nokkrir sem höfðu komið sér fyrir á bandarískum hernaðarflugvélum þegar þær fóru á loft.

Flug­fé­lög víða um heim eru nú hætt að fljúga yfir Afgan­istan en United Air­lines, British Airwa­ys og Virgin At­lantic af­lýstu öllum flugum í gær og í dag hafa Qatar Airwa­ys, Singa­por­e Air­lines, China Air­lines í Taí­van, Air France og Luft­hansa bæst í hópinn. Þá hafa Emira­tes og Tur­kish Air­lines af­lýst flug­ferðum til og frá Afgan­istan.