Bruninn í bílageymslunni við Engjasel á sunnudag er líklegast af mannavöldum. Íbúar er þakklátir að enginn hafi verið inni í geymslunni þegar eldurinn kviknaði.

Íbúar í Engjaseli heyrðu sprengingu og sáu eld í bíl í bílageymslunni sem barst fljótlega yfir í tvo aðra bíla. Húsráðandi í raðhúsi skammt frá bílageymslunni hringdi í slökkvilið og voru fjórir slökkviliðsbílar mættir á staðinn á innan við tíu mínútur.

Sjónarvottar sögðust hafa séð barn eða ungling að leika sér með flugelda áður en eldurinn kviknaði. Eftir að slökkvilið náði tökum á eldinum var fljótlega hægt að sjá að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum. Talið er að aðilinn hafi skotið flugeld í gegnum rist á glugga í bílageymslunni. Fór flugeldurinn sennilega ofan í dekkjastæðu og barst þaðan í bílana þrjá. Meðal þess sem brann voru dekk, rafgeymar og bensín í bílunum og var því reykurinn mjög eitraður.

Reykkafari slökkviliðsins gerir sig tilbúin til að fara inn í geymsluna. Formaður húsfélagsins segir slökkviliðið hafa unnið þrekvirki og náð að slökkva eldinn á mettíma.
Mynd: Aðsend

Horfði á bílinn sinn brenna

Valgerður Gréta Gröndal, formaður húsfélagsins Engjaseli 70 til 86, átti einn bílanna sem brann.

„Ég horfði niður úr svefnherbergisglugganum og sá eldinn og reykinn og hugsaði jæja, þá er bíllinn minn bara farinn,“ segir Valgerður í samtali við Fréttablaðið.

Hún brýnir fyrir fólki að athuga tryggingar sínar. Sjálf er hún með kaskó og segist hafa fengið ótrúlega góða þjónustu hjá tryggingafélagi sínu og er hún þegar búin að kaupa sér nýjan bíl.

„Ef þú hefur ekki efni á að missa bílinn þinn eða innbúið þitt, vertu með allt í kaskó.“

Þrír bílar brunnu en til allrar lukku var enginn inni í geymslunni þegar eldurinn kviknaði.
Mynd: Aðsend

Íbúarnir í Engjaseli eru þakklátir að ekki hafi farið verr.

„Við erum ótrúlega þakklát að enginn hafi verið þarna inni og að eldurinn hafi bara borist milli þriggja bíla. Þetta eru dýr tæki en bara hlutir. Til allrar lukku er geymslan ekki tengd blokkunum og engan sem sakaði,“ lýsir Valgerður.

Rafmagnið í bílageymslunni er í lamasessi að hluta til og sennilega þarf að skipta úr einangrun í veggjum. Í geymslunni er ennþá mikið sót eftir brunann og þarf því að fara í allsherjarhreinsun og sennilega skipta út rúðum og hurðum.

Málið á borði tæknideildar lögreglu

Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglustöðinni í Kópavogi og Breiðholti, segir að málið sé á borði tæknideildar og von er á skýrslu um atvikið sennilega í næstu viku.

Valgerður hvetur foreldra til að ræða við börnin sín um flugelda og eldhættu.

„Hvort sem þetta eru ung börn eða 18 ára unglingar, þá er það ábyrgð fullorðna að ræða við ungt fólk um að vera ekki að fikta með flugelda. Þú þarft ekki að vinna skemmdarverk til að læra um eldhættu. Þú getur líka lært af mistökum annarra,“ segir Valgerður.

Slökkviliðið lauk störfum sínum á sunnudag og tók þá lögreglan við vettvangi.
Mynd: Aðsend