Ó­prúttnir aðilar köstuðu flug­eldum inn í skóla­stofu Verzlunar­skóla Ís­lands í dag. Sem betur fer slasaðist enginn en skemmdir urðu á gólf­dúk í skólanum. Guð­rún Inga Sí­vert­sen, skóla­stjóri Verzlunar­skólans, segir málið vera til skoðunar og telur ekki lík­legt að söku­dólgarnir séu nem­endur við skólann. Vísir greinir frá.

„Það sprungu tveir litlir flug­eldar inni í kennslu­stofum og við erum bara að skoða hver kveikti þá - sem betur fer urðu engin slys á neinum. Það urðu smá skemmdir á gólf­dúk í kennslu­stofum en í rauninni er þetta bara mál sem við erum með í skoðun,“ segir Guð­rún Inga.

Að sögn nemanda í Verzlunar­skólanum sem frétta­stofa Vísis ræddi við kannaðist enginn sam­nem­enda hans við söku­dólgana. At­vikið átti sér stað undir lok skóla­dagsins þegar ein­hverjir nem­endur voru enn í skólanum

„Þeir köstuðu flug­eldum í nokkrar stofur. Svo bara fór kerfið í gang og kom mikill reykur. Svo hlupu þeir út þegar þeir föttuðu að það væru mynda­vélar,“ segir nemandinn en að sögn hans voru flug­eldarnir ekki mjög stórir.

Guð­rún Inga hefur óskað eftir því að aðilarnir gefi sig fram en telur ó­lík­legt að um nem­endur Verzlunar­skólans sé að ræða.

„Ég hef nú ekki heyrt frá neinum þannig að ég vil ekki draga neinar á­lyktanir strax. Ég hef það mikla trú á nem­endum okkar að ég held að þeir væru búnir að gefa sig fram ef þeir höfðu staðið að þessu. Ég held þetta hafi átt að vera fyndið en fór al­gjör­lega úr böndunum,“ segir hún.